12.10.2014 20:35

Haustferð kirkjustarfs eldri borgara í Grafarvogskirkju.

Nú er haustið gengið í garð og starfið í kirkjunum er víðast hvar hafið.

Í Grafarvogskirkju hófst starfið á því að fara í ferðalag og að þessu sinni fórum við 40 manns til Vestmannaeyja þriðjudaginn 16. september.
Lagt var af stað frá Grafarvogskirkju kl. 07:30  og ekið austur í Landeyjahöfn og síðan var siglt til Vestmannaeyja kl. 10:00. Veður var mjög gott, logn og  bjart svo við nutum þess mjög að sigla þess stuttu leið yfir til Vestmannaeyja.

Dagskráin í Vestmannaeyjum hófst á því að við fórum í Landakirkju þar sem sr. Kristján Björnsson sóknarprestur tók á móti okkur. Hann sagði okkur sögu Landakirkju á mjög skemmtilegan og áhrifaríkan hátt og við skoðuðum kirkjuna sem er mjög falleg og einnig fjölda fagurra gripa sem prýða hana. Því næst fór sr. Krisján með okkur í Stafkirkjuna sem Normenn gáfu okkur á lýðveldisárinu 2000. Kirkjan er byggð í gömlum stíl eins og kirkjur voru fyrr á öldum

Eftir þessar kirkjuheimsóknir fórum við í hádegismat á veitingastað sem heitir “Einsi kaldi” og þar var snæddur hádegisverður.
Á dagskrá eftir hádegi var að fara í Eldheima sem er nýtt safn um eldgosið á Heimaey. Þetta nýja safn er án efa eitt merkilegasta safn sem hægt er að skoða og var okkur öllum mjög hugsað til þeirra sem bjuggu í Vestmannaeyjum og tókust á við þessa skelfilegu atburði á sínum tíma.
Það er mjög sérstakt að svo miklar og nákvæmar upplýsingar um eldgosið og afleiðingar þess skuli vera varðveittar á svona glæsilegan hátt sem þarna er gert.
Mjög gott aðgengi er að safninu og allir fá heyrnatól sem leiða okkur um safnið svo hver og einn getur farið á sínum hraða og notið þess sem er að sjá og heyra.
Að lokum fengum við Geir Jón Þórisson f.v.lögregluvarðstjóra til að fara með okkur í útsýnisferð um Heimaey. Hann fór með okkur á alla helstu staði sem ferðafólk langar að sjá. Við fórum um nýja hraunið, ókum upp í Stórhöfða og um allan bæinn svo nokkuð sé nefnt og á þessari yfirferð sagði hann okkur á sinn skemmtilega hátt frá því sem fyrir augun bar.

Eftir þennan skemmtilega dag fórum við heim með síðdegisskipinu kl. 17:30 og  heim í Grafarvogskirkju komum við þreytt en ákaflega ánægð klukkan 20:00.