12.10.2014 20:15

Hugmyndir að haust og vorferðalögum í kirkjustarfi eldri borgara.

Dagsferð til Vestmannaeyja.

Skipið fer frá Landeyjahöfn kl. 10:00 f.h. og hægt er að taka ferðina kl 17:30 til baka í Landeyjahöfn. Þeir sem fara í svona ferð frá kirkjunum Reykjavík og nágrenni þurfa að láta rútuna sem þeir eru með, leggja af stað um kl. 07:30.
Það sem flestir skoða í Vestmannaeyjum er: Landakirkja og  Stafkirkjan. Gott er að hafa samband við prestana á staðnum og fá þá til að taka á móti hópnum.
Eldheimar er nýtt mjög glæsilegt safn sem sýnir á áhrifaríkann og lifandi hátt mynjar og myndir frá eldgosinu á Heimaey. Einnig er mjög gaman að fara í útsýnisferð um eyjuna og þá er gott að fá einhvern innfæddan til að vera með í för og segja frá því sem fyrir augun ber.
Nokkrar ferðaþjónustur eru starfandi og þær hafa fólk á sínum vegum sem tekur svona leiðsögn að sér. Fjölmargir veitingastaðir eru með góðan mat og auðvelt að semja við þá fyrir hópinn.

Grindavík.

Í Grindavík eru nokkrir áhugaverðir staðir sem gaman er að heimsækja.
Kirkjan er mjög falleg og þar tekur presturinn á móti hópum ef óskað er eftir því.
Útgerðarfyrirtækið Stakkavík tekur á móti hópum á mjög skemmtilegan hátt.
Fyrst er farið með fólkið á svalir á efri hæð vinnsluhússins og sagt frá vinnslunni um leið og horft er á fólkið sem er þar að störfum.
Á eftir er boðið uppá hressingu í mótttökusal og þar er sagt frá fyrirtækinu og uppbygginu þess og einnig sýnd mynd úr einni veiðiferð. Hægt er að panta mat fyrir hópa gegn vægu verði.
Einnig er Saltfisksetrið í Grindavík mjög skemmtilegt og þar eru margar gamlar myndir sem eldra fólk kannast við frá sínum yngri árum.
Nokkrir góðir veitingastaðir bjóða mat gegn vægu verði.

Hellisheiðarvirkjun.

Margir hafa mjög gaman af að skoða nýjar virkjanir og þá er tilvalið að heimsækja Hellisheiðarvirkjun. Nauðsynlegt er að hafa samband við starfsfólið þar til að fá staðarskoðun og á eftir er tilvalið að fara á einhvern góðan stað t.d. er Tryggvaskáli með góðan mat og kaffi
sem hægt er að panta fyrir hópa. Þannig er hægt að fá góða tilbreytingu og skemmtun sem tekur u.þ.b. 4-6 tíma.

Karmelklaustrið í Hafnarfirði.

Það er mjög gaman að heimsækja Karmelnunnurnar og fá þær til að taka á móti hópnum í kapellunni. Einnig er hægt að kaupa kaffi hjá þeim en þess ber þó að geta að þá þarf fólk að fara upp brattan stiga sem mörgum er erfitt eða ómögulegt. Verslunin þeirra er opin á daginn svo fólk getur skoðað það sem er í boði og verslað ef óskað er.
Svona ferð er tilvalin á aðventunni og þá er gott að lengja  hana með því að keyra um höfuðborgarsvæðið og skoða jólaljósin. Þá er gaman að enda á kaffihúsi eða jólakaffi í sínu eigin safnaðarheimili.