16.09.2015 20:29

Haustferð eldri borgara í Grafarvogskirkju 15. september 2015

Í kirkjustarfi eldri borgara í Grafarvogskirkju hefur skapast sú hefð að byrja hauststarfið á ferðalagi. Að þessu sinni var ákveðið að fara á nokkra staði á Suðurlandi. Lagt var af stað frá Grafarvogskirkju kl. 10:00 og ekið sem leið lá um Þingvelli og Lyngdalsheiði austur að Laugarvatni þar sem við stönsuðum stutta stund. Því næst var ferðinni heitið í Friðheima þar sem við áttum pantaða móttöku og léttan hádegisverð. Þegar við komum þangað var vel tekið á móti okkur og fengum við góða lýsingu á öllu því merkilega starfi sem þar fer fram. Sömu eigendur hafa rekið staðinn sl. 20 ár og byggt upp stóra nýtískulega gróðrastöð og einnig er þar í boði merkileg hestasýning. Aðallega eru ræktaðir tómatar af nokkrum tegundum og einnig agúrkur. Okkur var gerð grein fyrir ræktunarferlinu sem er mikið flóknara en við höfðum áður látið okkur detta í hug. Veitingasalurinn er í hluta eins gróðurhússins og þar fengum við yndislega tómatsúpu, heimabakað brauð og kaffi á eftir.

Tómatsúpan er alveg sérstaklega góð, enda gerð úr glænýjum tómötum og enginn efast um heimabökuð brauð. Þau eru alltaf eins góð og ylmurinn segir til um. Þar sem okkur fannst maturinn alveg sérstaklega góður fengum við kokkinn til að gefa okkur uppskrift bæði af súpunni og brauðinu.

Uppskriftin er þannig: 

Pottur af nýjum tómötum með skinni og öllu, smá grænmetiskraftur,Cayenne pipar á hnífsoddi, vatn.

Vatnið látið fljóta yfir tómatana og soðið við vægan hita í c.a. 30 mín. eða þar til þeir eru mjúkir og að lokum maukað með töfrasprota. Borið fram með nýju brauði smjöri og þeyttum rjóma. Hægt er að bragðbæta súpuna með Mangó eða Mangó cutney þá verður hún dálítið sætari.

Brauðið: 2 kg. Hveiti, 1,5 matsk. þurrger, 1.5 matsk. sykur, 1.5 tsk. salt, ca. 1 l. volgt vatn.

Deigið er hnoðað vel saman og látið hefa sig. Síðan er það hlutað í mátulega stóra brauðhleifa. Gott er að strá yfir deigið mismunandi tegundum af fræjum, osti eða kanelsykri. Látið hefast aftur og bakað við 210 gr.

Að lokinni þessari góðu heimsókn í Friðheima fórum við að Geysi í Haukadal, áttum þar stutta dvöl og síðan var ekið sem leið lá í Skálholt.

Í Skálholtsskóla var tekið einstaklega vel á móti okkur og þar var boðið upp á kaffiveitingar af glæsilegu hlaðborði. Sr. Halldór Reynisson gekk með hópnum um skólann og sagði um leið frá starfseminni þar sem er mjög fjölbreytt. Einnig fór hann með okkur í Þorláksbúð og sagði frá uppbyggingunni þar.

Að lokum fór hann með okkur í Skálholtskirkju, sagði frá kirkjunni og því helsta sem þar ber fyrir augu og áttum við góða stund saman á þessum helga stað.

Hópurinn kom heim í Grafarvogskirkju um kl. 18:00 og voru allir ánægðir með góða dagsferð í yndislegu veðri, sól og heiðríkju.

Samantekt, Valgerður Gísladóttir.