28.10.2015 10:05

Æfintýrið um vonina

Eftir Stein.

Ég opnaði hurðina ofurhægt, það gat verið að amma væri sofandi. Nei, þarna sat hún í rökkrinu og prjónaði. Ég læddist til hennar ósköp hægt, settist á skemilinn við fætur hennar og lagði höfuðið í kjöltu hennar. Það hafði gefist vel þegar ég var lítill og eitthvað amaði að mér, hvort sem ég hafði meitt mig, eitthvert leikfangið mitt brotnað eða hinir krakkarnir strítt mér. Amma hafði alltaf ráð og huggun á reiðum höndum. Nú var ég orðinn fullorðinn, en mig vantaði huggun. Amma lagði frá sér prjónana og lagði lófann ofan á vanga minn, alveg eins og meðan ég var barn. „Æ, amma mín“ sagði ég, hvernig er þetta líf ? „ Við reisum okkar fegurstu skýjaborgir, sem á einu augabragði hrynja í rúst. Dauðinn sviftir okkur ástvinunum, heimurinn gleðinni. Hvað er þá eftir ? Til hvers er að lifa þegar allt er tóm auðn og myrkur og hvað tekur við ? Ég get ekki einu sinni vitað með vissu að nokkurn tíman verði bjart framar. Sólin gæti slokknað og allt kólnað og storknað. Það væri nú reyndar það besta.“ Amma strauk ofurhægt eftir vanga mínum.

 „Þú gleymir einu barnið gott, þegar vinirnir deyja, og gleðin hverfur, þá eigum við þó eitt eftir, sem Guð gaf okkur sjálfur, og sem enginn getur tekið frá okkur, það er vonin. Hún gefur okkur vissuna um að lífið heldur áfram, að sólin rís á hverjum morgni og að Guð mun aldrei þreytast á að gefa okkur góðar gjafir. Þér þótti einu sinni gaman að æfintýrum. Viltu að ég segi þér eitt núna ?“

„Já, gerðu það, ef til vill styttir það daginn ofurlítið“ tautaði ég og lagði aftur augun, en amma hóf söguna.

„Guð hafði rekið mennina úr Paradís, og þau sem ekkert höfðu þurft að hafa fyrir lífinu, þurftu nú allt í einu að sjá sér fyrir öllu. Já, það mátti nú segja, að þau neyttu brauðs síns í sveita síns andlitis. Á daginn brenndi sólin þau og á næturnar nísti kuldinn þau. Eirðarlaus flökkuðu þau um og fannst þau hvergi eiga höfði sínu að að halla. Villidýrin hræddust þau, og þau áttu fullt í fangi með að veiða sér til matar, og smám saman læsti örvæntingin heljargreipum sínum um sálir þeirra.

Kvöld eitt, þegar Adam kom heim, dauðuppgefinn eftir erfiðan og árangurslausan dag, fleygði hann sér niður, jós sandi yfir höfuð sitt og formælti sjálfum sér. Þegjandi hlustaði Eva á þetta. Hún vissi þetta allt saman og hafði alltaf vitað. Adam hafði ekki hugmynd um öll tárin, sem hún hafði fellt og allar andvökunæturnar sem hún hafði átt.

Adam var þreyttur og sofnaði brátt, þá stóð konan upp og fór af stað. Hún stefndi í vesturátt, þangað sem kvöldroðinn gyllti stórkostlegt hlið Paradísar, eða ef til vill var það logasverðið, sem ljómaði þar. Leiðin var löng og henni virtist sem hún kæmist aldrei þangað, en loksins, loksins komst hún alla leið. Engillinn með logasverðið stóð þar strangur og alvarlegur. „Hvað villt þú“ ? spurði hann og rödd hans var eins og þruma. „Ó, herra“ stundi konan,“ hvers vegna er refsing þín svo hræðileg ? Léttu þessari byrði, lífinu af okkur, við getum ekki meira.“  

Eins og þýður vindblær hljómaði rödd Drottins: „Bæn þína get ég ekki uppfyllt dóttir, orð mín eru óbreytanleg. En engil vil ég gefa ykkur mönnunum fyrir förunaut í lífinu. Þegar þið eruð að örmagnast, mun hann leggja hönd sína huggandi á hjörtu ykkar, svo að þau fyllist gleði og friði og fullvissu um að sjá ykkar horfnu Paradís aftur. Far þú í friði.“

Konan fór, en hún fór ekki einsömul, með henni fór vonin niður til jarðarinnar.

„Nú er æfintýrið búið, barnið gott, en ég skal segja þér nokkuð. Ég er orðin gömul og ég hef oft og mörgum sinnum fundið hve dýrmæt vonin er. Þegar kolsvartur hamraveggur örvæntingarinnar umkringir okkur á allar hliðar, bendir vonin okkur á að líta hærra og þá megum við eiga víst að sjá blessaða sólina einhversstaðar á lofti og þegar dauðinn slítur ástvinina frá okkur, þá er það vonin, sem segir okkur að við munum sjá þá aftur, og hafi heimurinn svift okkur gleði, þá hjálpar vonin okkur til að eignast þúsund sinnum dýpri og sannari gleði.“

Ég stóð upp, þakkaði ömmu fyrir æfintýrið og fór. Ég sagðist ætla að hugsa betur um það og er að því ennþá.