23.12.2013 11:26

Barnatrú og Jólagleði

Jólasaga eftir Elí.

Himininn var þungbúinn: skýin héngu grá og regnþrungin yfir bænum og luktu Öðru hvoru virtust skýin tæmd og þreytt orðin á þessu eilífa  niðurstreymi, en þá skullu aftur á stormkviður og fluttu með sér skýjaflóka, er svo héldu sama leiknum áfram og sendu vatnsstrauma sína með ótrúlegu þolgæði yfir allt og alla.” Er nokkur von til að þetta verði nokkur jól í lagi “ ? sögðu efnamennirnir hver við annan og stundu við. “Við erum alveg ráðalausir með að geyma allan jólamatinn okkar í þessu saggaveðri"

 

En samt suðu þeir, steiktu og bökuðu og höfðu allan hugsanlegan viðbúnað eins og áður, þó þeir væru áhyggjufullir og í hálfgerðum vandræðum með allar þessar alsnægtir sínar. Aðalþrá þeirra var að kólna tæki í veðri. “Nei, þetta er ekki líkt neinu jólaveðri,” sögðu börnin ergileg og hlupu út og inn og voru ávallt að gá til veðurs og líta eftir, hvort þau sæju ekki smá blett heiðan á himninum eða örlítinn sólargeisla brjótast í gegnum skýjaþykknið. “ Ó, að nú færi að snjóa og kólna ofurlítið í staðinn fyrir þessa óþolandi rigningu"

Hver getur hugsað sér snjólaus jól.

Einn var að hugsa um skíðin, sem honum hafði verið lofað í jólagjöf og annar um skautana, sem hann vonaðist eftir að fá. Nei, þetta verða víst þokkaleg jól eða hitt þó heldur ! “ Það verður líklega ekki jólalegt hjá mér í þetta sinn,” andvarpaði fátæka ekkjan í bakhúsinu. En það voru nú ekki regnskýin úti, sem gerðu himininnn hennar þungbúinn, heldur þau skýin, sem safnast höfðu fyrir í sárri sálu hennar: og hún kveið heldur ekki mest fyrir regninu, sem streymdi úr loftinu, heldur því, sem stöðugt leitaði á að brjótast út úr þreyttum augum hennar sjálfrar. Hún hafði heldur ekki áhyggjur út af of miklum jólakræsingum eða geymslu á þeim, því hvar sem leitað var, fannst ekki agnarögn matarkyns og engir peningar heldur.

“Ja. hvers konar jól ætli þetta verði”? sagði hún við sjálfa sig og kreisti magrar hendurnar í öngum sínum. Og hún ákallaði í nauðum sínum Hann, sem er vinur allra fátækra og þjáðra – hinn mikla Drottinn jólanna. “Ertu viss um það, mamma, að Jesús gefi mér skóna, sem þú veist að ég hef beðið hann um í jólagjöf ? sagði Karl litli, 7 ára drengur, er hún átti, og var það víst í tíunda sinn, er hann spurði mömmu sína um þetta þennan dag. “Ég er svo hræddur um að hann gleymi því, mamma, því það eru víst svo margir, sem hann verður að muna eftir og margir, sem biðja hann um jólagjafir, eins og þú veist,” sagði drengurinn ennfremur. “Þú þarft ekki að vera hræddur um það, drengurinn minn. Jesús gleymir engu og engum. En þú verður að tala um það við hann áfram, Karl litli.” Drengurinn hljóp þá glaður og öruggur til þess að minna Jesú enn einu sinni á hve mikla þörf hann hefði fyrir þessa skó, og nú lægi svo  mikið á þessu, því aðfangadagur jóla væri á morgunn.

En því miður var hjarta móður hans ekki rólegt og öruggt: það lá nærri að trú hennar og von brysti, því hvaðan áttu þessir skór svo að koma ? Og henni óaði við tilhugsuninni um það, ef trú og traust litla drengsins hennar yrði til skammar. En þá var eins og hvíslað væri að henni: “ Hann sem ekki þyrmdi sínum eigin syni, heldur gaf hann í dauðann fyrir oss, hví skyldi hann þá ekki gefa oss allt með honum “?

Þarna stendur allt, og hún hafði efast um að hinn himneski faðir gæti gefið litla drengnum hennar eina einustu skó. Nei, það var ekkert að óttast um það. Hann mundi gefa Karli skó og ef til vill treyju líka. Hver veit nema hann gæfi Tullu litlu kjól og ofurlitla matbjörg líka.  Allt – yðar himneski faðir veit að þér þurfið alls þessa við. Hún spennti greipar í gleði sinni og þakkaði Guði, - þakkaði honum fyrir jólin og fagnaðarboðskap þeirra um gjöfina mestu af öllum gjöfum.

Þá var barið að dyrum og inn kom Kristjana, eldhússtúlkan hjá Lund ræðismanni. Hún átti að spyrja frá ræðismanninum hvort Karl litli mundi ekki geta notað skó, sem hún kom með. Ræðismaðurinn hafði hlotið þá í jólahappdrætti verslunarmannafélagsins, en hafði engin not fyrir þá sjálfur. “Ó, ertu að koma með skóna mína ? Ég hef alltaf verið að vonast eftir þeim. En ég vissi að Guð mundi ekki gleyma þeim” sagði Karl litli fagnandi. Skórnir voru honum auðvitað alveg mátulegir. “Hjálparinn í nauðinni”, sem Karl leitaði til, vissi upp á hár hve stór hann var. Karl var ekki lengi að láta á sig skóna og var nú heldur en ekki glaður og ánægður, þar sem hann labbaði fram og aftur um gólfið í stofunni. “Sjáðu, mamma, hvað þeir eru fallegir ! Er Guð nú ekki ákaflega góður, mamma ?

“Jú, sannarlega er hann það, og þú mátt heldur ekki gleyma að þakka honum fyrir það.” Jafnskjótt hætti Karl að ganga um gólfið og gekk út að glugganum, spennti þar greipar, leit til himins og sagði með innileik í elskulegri barnsröddinni sinni: “Þakka þér, kæri Jesús, þakka þér mörgum sinnum fyrir skóna, sem þú gafst mér”! Og móðir hans þakkaði líka í hálfum hljóðum, með tár í augunum. “En heyrðu, mamma, hvers vegna sagði hún Kristjana, að skórnir væru frá Lund ræðismanni, fyrst að Jesú gaf mér þá? “Jú, sjáðu til, drengur minn, Drottinn Jesú hefur notað Lund fyrir  milligöngumann og beðið hann að koma skónum til þín.” Þetta skildi Karl. Hann vissi ofurvel, hvað það var að fara í sendiferðir fyrir hina og aðra þar í kring.

Þetta varð honum ærið umhugsunarefni - að Lund ræðismaður, þessi mikli heldri maður, skyldi vera sendisveinn Guðs. – Þetta var nú reyndar ofureðlilegt, að Guð, sem var svo mikill og voldugur konungur yfir öllum heiminum – gæti ekki notað venjulegann sendisvein eins og hann Jens hinu megin við ganginn. Hann notaði því Lund ræðismann. Karl hugsaði og hugsaði svo mikið um þetta, að hann var kominn heim að húsi Lunds og hringdi þar á dyrabjölluna.

“ Nú, nú, Karl,” sagði Kristjana, sem opnaði fyrir honum. “Ertu kominn til að þakka fyrir skóna? Farðu beint inn í stofuna. Ræðismaðurinn er heima.” Kristjönu þótti háft í hvoru gaman að þessari heimsókn til hins drembiláta og harðlundaða ræðismanns.

En Karl litli gekk djarflega inn í stofuna, hneigði sig djúpt fyrir ræðismanninum og sagði “ Góðan daginn ! Ferð þú í sendiferðir fyrir Jesús” ?

“Sendiferðir ? – Hvað ertu að fara drengur ? Hver ert þú” ? sagði ræðismaðurinn hryssingslega og reiðilega. “Þú sendir mér skóna frá Guði, sem ég hef beðið hann um, og nú langaði mig að spyrja þig, hvort þú værir ekki með fleiri böggla til okkar.”

“Fleiri böggla – er drengurinn orðinn bandvitlaus eða hvað er að honum” ? “Þú komst með skóna sem ég bað um, og mamma sagði, að það væri af því að þú færir í sendiferðir fyrir Jesú. En mamma hefir líka beðið hann um að senda okkur svolítið af mat, og svo hélt ég að þú hefðir verið beðinn fyrir hann líka.”Lund ræðismaður var svo undrandi að hann gat ekki annað en setið og einblínt á drenginn. Slíkt og þvílíkt hafði aldrei komið fyrir hann áður. Þegar drengurinn fékk ekkertsvar, stundi hann ofurlítið við og sagði: “Guð hefur líklega ekki heyrt til hennar mömmu því hún talaði svo lágt og svo grét hún svo mikið líka. En gætir þú ekki sagt honum frá því ? Og segðu honum þá líka, að hann þurfi ekki að senda jólatréð, sem ég bað um, ef hún mamma fær aðeins það, sem hún bað um.”

En nú gat ræðismaðurinn ekki setið á sér lengur. hann stóð upp í öllu veldi sínu. “Nei, þú getur verið öruggur ! Ég fer engar slíkar sendiferðir. Reyndu að koma þér út drengur minn!” Og út komst hann, litli drengurinn, ringlaður og utan við sig. Það var ótrúlegt að maður, sem var í sendiferðum fyrir Guð, væri svona ófróður um allt þetta. En skóna fékk hann þó.

Lund ræðismaður settist aftur og hagræddi sér með blaðið, sem hann var að lesa. En blaðið var orðið eitthvað svo undarlegt, því hvar sem hann leit á það stóðu orðin: Fer þú í sendiferðir fyrir Jesúm ? Hann Lund ræðismaður, fara í sendiferðir ! Nei, hann fór sannarlega ekki í sendiferðir fyrir neinn. Sannast að segja hafði hann víst aldrei gert neitt þess konar. Hann hafði þjónað sjálfum sér einum og sínum eigin áhugaefnum alla sína æfi – hafði aldrei hugsað um aðra. ---- Mamma bað um svolítið af mat, --- og svo grét hún svo mikið líka. ---- Uss, en hvað þessir öreigar geta verið nærgöngulir ! Sennilega hefir móðir drengsins sent hann til þess að sníkja á þennan hátt. Þessar skóskammir ! Hann fleygði blaðinu frá sér gramur í geði, tók hatt sinn og yfirhöfn og gekk út.Hann hafði sannarlega þörf á að draga að sér hreint loft eftir annað eins og þetta. Þvílíkt hyski ! En hvað slíkur óþokkastrákur gat verið framhleypinn að spyrja hann, hvort hann væri í sendiferðum !

En gönguförin virtist ekki gagnast honum neitt, og hann átti líka mjög óværa nótt. Hann gat með engu móti gleymt hreinu barnsaugunum og innilegu barnsröddinni, sem sagði: “ Fer þú í sendiferðir fyrir Jesúm ? Mamma bað um svolítið af mat -- og svo grét hún svo mikið líka. “ Uss, var ómögulegt að finna neinn frið fyrir þessu ? Og svo rann aðfangadagurinn upp. Ræðismaðurinn reyndi að borða morgunverð, en honum fannst hann ekki eins gómsætur og vanalega. Þá hringdi hann ofsalega á Kristjönu. “Þekkið þér nokkuð ekkjuna, sem býr þarna í bakhúsinu, Kristjana” ?

“Ójá, veslinginn. Hún á í basli. Hún reynir að hafa ofan af fyrir sér og börnunum með saumum: en hún hefur verið svo oft veik í vetur og hún --- --- ” “Hafið mig afsakaðan, Kristjana, þetta kemur mér þó varla við allt saman” tók ræðismaðurinn hryssingslega fram í fyrir henni. Hum ! hum ! hvað var það sem ég ætlaði að segja” --- --- Hann ræksti sig út úr hálfgerðum vandræðum --- --- heyrið, Kristjana, sendið þeim þá eitthvað af mat --- --- en sjáið um, að það sé nóg --- --- gætið þess, --- --- og það væri ef til vill rétt að senda þeim ofurlítið annað sem þau vanhagar um. Og svo er best að biðja hann Jóhann um að fara með eitt viðarhlass þangað líka. Humm --- --- humm --- ! svo vildi ég yður ekki annað. annars fæ ég hvorki frið né ró” bætti hann við með sjálfum sér. Svo kom aðfangadagskvöldið. Lund ræðismaður sat einmana í stofu sinni: en þó merkilegt væri, þá hafði hann gleðitilfinningu, sem hann hafði ekki fundið til í mörg ár og honum varð það, hvað eftir annað á, að gægjast út um gluggann, til þess að líta eftir ljósinu hjá fátæku ekkjunni. En það, sem þó var enn einkennilegra, var, að Biblían hans, sem ekki hafði verið handleikin árum saman, lá á borðinu hjá honum. Hann lauk henni ósjálfrátt upp og urðu þá fyrir honum þessi orð: “ Það sem þér hafið gert einum af mínum minnstu bræðrum, það hafið þér og gert mér.”

En hvað það var þó einkennilegt ! Þá leit nærri því svo út eins og eitthvert

samhengi og tilgangur væri í öllu þessu.

Hann mátti til að lesa dálítið meira um þetta efni.

En í bakhúsinu ríkti fögnuður og gleði í hjörtum litlu barnanna yfir litlu jólatré,

sem hin hugvitsama Kristjana hafði útbúið fyrir þau. En mamma þeirra sat

með spenntar greipar í þögulli undrun yfir gæsku Guðs við hana og litlu börnin

hennar, og yfir því, að hann skyldi hafa getað notað hinn drambláta Lund

ræðismann, sem kunnur var að sérlyndi og nísku, fyrir boðbera sinn. Þá gæti

hann notað flesta í sína þjónustu.

Kirkjuklukkurnar hljómuðu. Skýin voru horfin og stjörnurnar tindruðu. Úr öllum

áttum barst gleðiboðskapur jólanna: “ Yður er í dag frelsari fæddur. Dýrð sé

Guði í upphæðum, Friður á jörðu með þeim mönnum sem hann hefir

velþóknun á.“

Sj. þýddi.

 

03.12.2013 00:00

Barn vafið reifum eftir Frode Beyer biskup

“Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.”

 

Þann boðskap heyrðu hirðarnir á Betlehemsvöllum fyrstu jólanóttina. Þó að guðspjall jólanna nefni það ekki beint segir í jólasálminum, “Sannur Guð vafinn reifum er,” og það með réttu. Jesú biðu kjör hinna fátæku.
Öll kornabörn eru vafin reifum. Nakin komum við í heiminn. Barnið sem kemur frá hlýju móðurskauti mætir kaldri og óblíðri veröld. Og söm var sú veröld sem mætti Jesú barninu sem kom frá hlýjum himnaranni. Nakinn og allslaus kom hann til jarðarinnar “sviptur öllu guðlegu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur.” Gekk inn í kjör þeirra. Fátækt hans varð auður mannsins.
“Reifum vafinn,” þannig er líf guðsmannsins á jörðu. Jafnvel hinir guðhræddustu og hjartahreinu viðurkenna að líf þeirra með Guði sé í upphafi eins og maðurinn væri í tötrum. Hjá litla barninu sem borið var á jólanótt birtist okkur Guð og máttur hans eins og í reifum.
Þrátt fyrir þá staðreynd að Jesús hafi sem fullorðinn gengið um, gjört gott og flutt mönnum fagnaðarerindið voru margir sem ekki komu auga á hið guðlega hjá honum aðeins hið mannlega í ytri “reifum.”
Aðeins fáir gátu tekið undir:
“Og orðið varð hold og hann bjó með oss fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð sem eingetins sonar frá föður, fullur náðar og sannleika.”

 

Það kann að vera erfitt að sjá annað en mannlega tötra okkar þrátt fyrir að við treystum því að líf okkar sé frá Guði. Líf hins kristna manns hér á jörðu er ætíð reifum vafið.

Það var fyrst að morgni páskadags að Jesú rauf reifarnar svo að guðlegur máttur hans yrði öllum opinber. Við treystum því að sá dagur komi í lífi okkar – við væntum þess.

“Reifum vafið” jafnvel sjálf jólin. Allt hið ytra, hátíðin, jólatrén, jólaljósin, jólagjafirnar og allt annað til hátíðarbrigða, er sem reifar um hin sönnu jól. Hversu mjög sem við reynum að fegra þessar reifar eru þær sem dulur móts við þá dýrð sem birtist okkur í fagnaðarboðskap jólanna:

“Yður er í dag frelsari fæddur.”

Látum ekki reifarnar einar koma í stað barnsins.


Vafin tötrum. Þannig eru jólin hjá mörgum. Fátækt, neyð, sorg og synd vefst upp eins og fjötur og kemur í stað hinnar sönnu jólagleði.
En þegar það rennur upp fyrir okkur að barnið sem fæddist á jólanótt er sonur Guðs, frelsari heimsins og jafnframt frelsari okkar verður gleðin innra með okkur djarfari, einlægari og dýpri.
Þá tökum við undir í jólasálminum kæra:
        
        “Hvert fátækt hreysi höll nú er
        höll nú er,
        því Guð er sjálfur gestur hér,
        Hallelúja,Hallelúja.”

Innra með þér finnur þú hvað hátíð sannrar gleði nær miklum tökum á þér.

Reifum vafinn – því miður, slík eru örlög friðarins. Samt var boðskapur englanna á jólanótt:

“Friður á jörðu.”

Það er eins og friðurinn sé vafinn reifum og eigi erfitt með að breiðast út og verða að alheimsfriði. Friðurinn er sem ómálga barn í harðneskjulegum heimi. En þar sem Kristur fær að komast að ríkir friður innra með manninum. Sá friður getur vissulega vaxið svo að hann nái að breiðast út til annarra og tengja saman friðarins bönd meðal þeirra sem búa við ófrið og hörmungar.

Guð gefi að sá friður eflist og búi meðal mannanna, ekki aðeins á jólum, heldur alla daga sem á eftir koma.
Við njótum gleðilegra jóla þegar við skynjum barnið sjálft, hvað sem reifunum líður. Þá berast hinar sönnu jólaóskir frá manni til manns.
Og söngurinn hljómar:
                    “Þér Guð sé lof fyrir gleðileg jól.
                        Hallelúja, Hallelúja.”

Þýtt úr Dönsku. M.G.

<< Til Baka í Jólaefni >>

 

02.12.2013 11:02

Hvernig varð jólasálmurinn Heims um ból til ?

Í vitund margra hafa jólin smám saman misst sitt innsta gildi í flóði auglýsinga og kaupmennsku. Siðir og tákn, sem í aldanna rás hafa sprottið upp með alþýðunni og breiðst út um allan hinn kristna heim, óháð landamærum eða mismunandi tungumálum, hafa orðið lágkúrunni að bráð. En þrátt fyrir misnotkun og siðspillingu samtíðarinnar lifa jólin áfram með kynslóðunum – forsmáð eða vegsömuð. Og ætíð er tilhlökkunin sú sama hjá börnunum -

og þeim fullorðnu, sem ekki hafa glatað þeim hæfileika barnsins að gleðjast af einlægu hjarta.  Oft er talað um yfirborðsgæsku og viðkvæmni manna á jólunum. Þegar allt kemur til alls komast þó fæstir hjá því að hrífast af hugblæ jólanna, þrátt fyrir allt veraldlega tilstandið.

Að baki þessu öllu liggur nefnilega nokkuð sem höfðar til nær allra, óháð trú eða trúleysi. Það kristallast í þessum einföldu orðum: “Friður á jörðu.”

Þessi sammannlega ósk kemur fram í öllum okkar fögru jólasálmum. Sá sálmur sem líklega er samgrómnastur flestum og bundinn jólunum órjúfandi böndum er án vafa Heims um ból eða Hljóða nótt, heilaga nótt, eins og hann heitir á frummálinu.

 Hvers vegna varð þessi sálmur öllum öðrum fremur sálmur jólanna ? Svo sannarlega hefur hann verið gagnrýndur. Jafnvel áður en menn vissu uppruna lagsins fullyrtu tónfróðir menn að það væri einhæft klúðurslegt verk sem væri tónlistarlega séð einskis virði. En þetta “klúður” breiddist skjótt út um veröld alla og hér lifir sálmurinn óbugaður áfram kynslóð eftir kynslóð til óblandinnar ánægju.

 

Hvernig varð þessi ódauðlegi sálmur svo til ? Hér áttu hlut að máli svo ólíkar verur sem Napoleon Bonaparte og nokkrar austurískar kirkjumýs. Árið 1818 var Josef Mohr aðstoðarprestur við st. Nikulásarkirkjuna í smábæ einum í Oberdorf í Austurríki.

Tveim dögum fyrir aðfangadag færði aðstoðarorganistinn, ungi kennarinn Franz Gruber, honum þær döpru fréttir að kirkjuorgelið væri í svo aumu ástandi að ekki fengist úr því einn einasti réttur tónn. Orgelið hafð svo sem aldrei verið neitt til að hrópa húrra fyrir í tíð Franz Grubers. En nú höfðu kirkjumýsnar nagað belginn og orgelið sjálft svo alvarlega að ekki þýddi einu sinni að hugsa um að nota það – og alls ekki við aftansöng.

Oft hafði verið talað um að það þyrfti að gera við orgelið. En jafnoft höfðu menn orðið að viðurkenna að engir peningar væru til fyrir viðgerðinni. Efnahagslífið var enn í rústum víða í Evrópu eftir Napoleonsstríðið. Menn höfðu ekki efni á neinu fram yfir nauðþurftir. Annað varð að bíða betri tíma. Ein afleiðing þessa hryggilega ástands var sú, að aðstoðarpresturinn og organistinn í Obendorf stóðu uppi tveim dögum fyrir jól, vonlausir um orgelleik við sjálfan aftansönginn.

Þeir ræddu málið fram og aftur og voru orðnir nær úrkula vonar um lausn þegar Josef Mohr stökk allt í einu upp úr stólnum og faðmaði vin sinn að sér í mikilli geðshræringu:  “Nú veit ég Franz! Ég hef fundið ráð. Við semjum saman nýtt verk til að flytja við aftansönginn. Ég sem alveg nýjan sálm og þú semur lagið!”

Án þess að hafa fleiri orð um þetta, hélt Josef Mohr strax heim á prestsetrið, og við skrifpúltið í litla herberginu sínu hóf hann glímuna við verkið. Útkoman varð Hljóða nótt, heilaga nótt, á þýsku Stille Nacht, heilige Nacht. Strax sama dag fór hann með textann til Grubers og bað hann að semja lag sem hægt væri að nota án orgelundirleiks. Lagið skyldi hann útsetja fyrir tvær einsöngsraddir, kór og gítar.

Franz Gruber hófst þegar handa og morguninn eftir var verkinu lokið, eftir andvökunótt. Daginn eftir var kirkjukórinn, sem samanstóð af ungum stúlkum frá Oberndorf, á stöðugum æfingum. Við aftansönginn á aðfangadagskvöld, árið 1818, hljómaði svo sálmurinn í fyrsta skipti í eyrum undrandi og heillaðs safnaðarins, fluttur af þýðum stúlknaröddum og mjúkum hljómum gítarsins hans Franz Grubers.

Það var aðeins einn sem skildi til fulls hvað hér var í raun á ferðinni. Það var kona Grubers. Á leiðinni heim frá kirkjunni þreif hún í handlegginn á manni sínum og sagði: “Franz, þessi sálmur verður sunginn áfram eftir að við verðum dáin og grafin!”

Sjálfsagt hefur Franz Gruber aðeins túlkað orð konu sinnar sem feginleik yfir að allt hefði farið svona vel. Það hafði ekki vakað annað fyrir þeim vinunum en að semja verk sem gæti bjargað þeim út úr vandræðunum sem bilaða orgelið olli. En svo undarlega vildi til að einmitt þetta sama orgel orsakaði það, að sálmurinn frá litla  austuríska bænum barst út um allan hinn kristna heim.

Árið eftir hinn minnisverða aftansöng tókst nefnilega að útvega fé til að gera við orgelið í St. Nikulásarkirkjunni. Sent var eftir hinum fræga orgelsmið Karli Mauracher frá Zillerthal í Týról. Þessi söngelski Týrólbúi kom og gerði við úr sér gengið orgelið. Þá fékk hann að heyra Stille Nacht, heilige Nacht. Hann varð svo hrifinn að hann bað um afrit sem hann góðfúslega fékk.

Og þar með var hafið langt og ævintýralegt ferðalag sálmsins.  Nýja jólasálminum var tekið með mikilli hrifningu í Zillerthal, þar sem hann varð fljótlega almenningseign. Þaðan barst hann svo fyrir endurteknar tilviljanir til Þýskalands.

Í bænum Laimbach í Zillerthal bjuggu fjórar söngelskar systur, Strasser að eftirnafni, sem ráku hanskaverkstæði. Hanskasaumur var þeirra lifibrauð og öðru hvoru fóru þær til stóru verslunarbæjanna í Þýskalandi til að sýna og selja varning sinn. Á þessum ferðum sínum notuðu systurnar hvert tækifæri sem gafst til að halda söngskemmtanir þar sem þær sungu þjóðlög frá Týról. Á einni slíkri skemmtun heyrði organistinn Franz Alscher í Leipsig þær syngja Stille Nacht, heilige Nacht. Alscher hreyfst svo af sálminum að hann bað systurnar að syngja hann við aftansöng í konunglegu hirðkirkjunni í Pleisenburg. Í einu vetfangi náði þessi áður óþekkti sálmur nú til fólks sem breiddi hann út um allt Þýskaland. Þar sem systurnar fjórar frá Týról sungu hann álitu menn að þetta væri þjóðlag þaðan. En það voru ekki allir ánægðir með þá skýringu. Sumir fullyrtu að bróðir Josefs Haydn, Micael Haydn, hefði samið lagið.

Umræðan um þetta barst svo víða að hún náði loks eyrum Franz Grubers. 30. desember 1854 skrifaði hann bréf til hirðkirkjunnar í Berlín og sgði þar frá tilurð lagsins. Þetta var ekki tekið trúanlegt og óvissan um uppruna lagsins ríkti áfram alveg til ársins 1897. Fyrst þá fékk hið sanna að koma í ljós – 34 árum eftir dauða Franz Grubers og nærri 50 árum eftir dauða Josefs Mohr. En þá hafði spádómur frú Grubers fyrir löngu ræst. Sálmurinn var þá þegar þekktur og elskaður víða um heim. Og síðan hefur hann haldi áfram sigurgöngu sinni alls staðar á jörðinni þar sem menn halda heilög jól.

Á milljónum heimila og kirkna um heim allan munu tónar Grubers flæða, nú í ár sem áður, og svo mun verða um ókomin ár; Stille Nacht, heilige Nacht, sem í íslenskri “þýðingu”  Sveinbjarnar Egilssonar varð Heims um ból, helg eru jól.

Sálmurinn sem við syngjum við þetta fræga lag er eftir Sveinbjörn Egilsson. Í ljóðmælum Sveinbjarnar er hann kallaður “Jóla-lofsaungur” og í frumútgáfu ljóðmælanna er þessi  athugasemd: “Lagið og hugsunin er tekin eftir kvæðinu Stille Nacht.” “Þýðing” Sveinbjarnar mun vera frá árinu 1849. Hvar Sveinbjörn hefur kynnst frumsálminum er óvíst. Sjálfsagt gæti það orðið efni í langa ritgerð að rekja þá sögu. En við sjáum að það hafa ekki liðið nema 31 ár milli þess að sálmurinn varð til og hann var þýddur hér. Ef til vill hefur einhver annar spreytt sig á þessu á undan honum. Að minnsta kosti eitt annað skáld hefur ort sálm við þetta lag og virðist hann standa heldur nær frumtextanum en sálmur sveinbjarnar. Þetta skáld er Matthías Jochumson.

Hér birtast báðir sálmarnir. Það er athyglisvert að báðir yrkja aðeins 3 erindi, en frumsálmurinn er 6 erindi. Þess ber þó að gæta að erindi týndust úr sálminum meðan hann gekk sem þjóðlag.

Getur verið að Sveinbjörn og Matthías hafi þekkt sálminn í einhverri slíkri mynd ?

Sveinbjörn Egilsson:

Heims um ból helg eru jól,
signuð mær son Guðs ól,
frelsun mannanna, frelsisins lind,
frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind
:,: meinvill í myrkrunum lá. :,:

Heimi í hátíð er ný,
himneskt ljós lýsir ský,
liggur í jötunni lávarður heims,
lifandi brunnur hins andlega seims,
:,: konungur lífs vors og ljóss. :,:

Heyra má himnum í frá
englasöng: “Allelújá.”
Friður á jörðu, því faðirinn er
fús þeim að líkna, sem tilreiðir sér
:,: samastað syninum hjá.:,:

 

Matthías Jochumson.

Blessuð jól, bjartari sól
leiftra frá ljósanna stól:
hlusta nú. jörð, á hin himnesku ljóð,
helgandi, blessandi synduga þjóð,
Guði sé dásemd og dýrð!

Hægt og hljótt, heilaga nótt,
faðmar þú frelsaða drótt.
Plantar Guðs lífsfræi
um hávetrarhjarn,
himnesku smáljósi gleður hvert barn.
Friður um frelsaða jörð !

Jesúbarn ! Betlehemsrós,
dýrð sé þér, þjóðanna ljós !
Ljúfustum barnsfaðmi,
lausnari kær.
Lykur þú jörðina, fagur og skær.
Guði sé vegsemd og vald !

(Ljóðmæli eftir Matthías Jochumson. 3. heildarútgáfa mikið aukin Reykjavík 1936 )