09.10.2011 21:54

Öll þau klukknaköll


Á næstunni munum við bitra nokkrar frá sagnir úr bókinni   Öll þau klukknaköll. Frásagnir 25 prestkvenna.
Útgefandi er Vestfirska forlagið og í ritnefnd eru:
Anna Sigurkarlsdóttir, Ágúst Sigurðsson frá Möðruvöllum og Guðrún L. Ásgeirsdóttir.

Hér á eftir kemur frásögn Guðrúnar S. Jónsdóttur Sauðlauksdal.

Árin vestra eru mér kær.
Móðir mín, Jórunn Halldórsdóttir, lést þegar ég var rétt komin á annað ár. Bjuggu foreldrar mínir, Jón Ólafur Gunnlaugsson, síðar stjórnarráðsfulltrúi, í Skálholti og þar er ég fædd.

Eftir missi eiginkonunnar reiddi faðir minn litlu telpuna sína fyrir framan sig niður að Kiðjabergi til frændfólksins og þar ólst ég upp, en fór síðar til Reykjavíkur til föður míns og síðari konu hans, Ingunnar Elínar Þórðardóttur. Átti ég síðan heima í höfuðstaðnum og giftist þar um sumarmálin 1939 Grími Grímssyni, fulltrúa hjá tollstjóranum. Grímur var stúdent og af kunnum prestaættum og hefur það orðið til þess, að hann hóf guðfræðinám liðlega fertugur og varð kandidat í guðfræði 1954. Þá var hann vígður prestur til Sauðlauksdals við Patreksfjörð og vorum við þar í nær 10 ár.

Flutningurinn úr Reykjavík og vestur á Patreksfjörð var dálítið sögulegur fyrir mig, af því að ég var orðin svo mikill Reykvíkingur. En einfaldlega aðeins sá, að búslóðin okkar var flutt á vörubíl niður á höfn, skipað um borð í Esjuna og fórum við með henni vestur. Þar var í fyrstu úr vöndu að ráða, hvernig ætti að koma innbúi okkar í Sauðlauksdal, bílferðin þangað leynir á sér, því  að vondur  vegur var inn fyrir fjörðinn og vegna sandsins innan og neðan við prestsetursstaðinn, var þar ófært nema á fjórhjóladrifs bíl. Nokkur leit var að slíku farartæki en tókst þó vel og heim að fyrirheitna staðnum komumst við heilu og höldnu.  Þar var nær nýtt og stórt steinhús og hugsuðum við gott til að koma okkur þar fyrir.

En viti menn, kemur þá ekki maður nokkur, sem raunar bar af sér góðan þokka, og segir við mig, að jarðarför verði á staðnum daginn eftir og hvort ég vildi lána stofurnar fyrir erfisdrykkju á eftir. Góð ráð voru dýr, en stúlka frá nágrannabænum í Kvígindisdal kom til að hjálpa mér við undirbúninginn í eldhúsinu, en nokkrir nágrannar báru stofuhúsgögnin inn, svo að segja mátti, að þetta yrði mögulegt. En þá kom annað til. Komumaður sagði við mig, að hér væri enginn organisti og hvort ég gæti ekki spilað við jarðarförina. Ég varð mjög hissa og vildi endilega reyna. Hafði ég lært á orgel hjá frú Sigríði Helgadóttur 15 árum áður og svo sem ekkert spilað síðan. Þá kom það í ljós, þegar ég fór niður í kirkju til að reyna við jarðarfararsálmana, að mús hafði étið gat á belginn. Límdi ég fyrir það með góðu létefti, sem raunar var nú ætlað í annað, en það merkilega er, að þessi viðgerð mín entist öll okkar ár í Sauðlauksdal, en alltaf lét ég bera orgelið inn í bæ, svo að ég gæti æft mig og mýs nöguðu ekki aftur gat á belginn. Þá var líka of kalt í kirkjunni til þess að ég gæti æft mig undir það organistastarf, sem ég var bersýnilega kölluð til að gegna.

Auk heimakirkjunnar höfðum við annexíur í Saurbæ á Rauðasandi og var þangað yfir fjall að fara, Skersheiði, og svo út í Breiðavík, en þar var Helgi Árnason bóndi í Kollsvík, organisti. Kirkjan þar út frá var fallandi timburhjallur. Hurðin var bundin sftur með skóreim. 

Organistastóllinn var 2 steinhellur. Sat Helgi alla tíð á þeim og ég líka, þegar ég spilaði í kirkjunni. Þetta orgelharmoníum var notað, þangað til nýja kirkjan kom 1964. Það versta við þetta hljóðfæri var það, að alltaf þurfti að ýta upp hverri nótu. Hinn roskni Kollsvíkurbóndi var þrautþjálfaður í því og kenndi hann mér helstu gripin, ef ég þyrfti að spila. Meðhjálparinn í Saurbæ var Ívar bóndi í Kirkjuhvammi. Þar reyndi á í fyrsta skiptið, sem ég lék þar undir við messu, að borðinn á annarri fótafjölinni var slitinn. - Höfðu mýs áreiðanlega nagað.

Hafði ég að reglu fyrir hverja messu og aðrar athafnir í Saurbæjarkirkju, að Ívar prófaði fyrst, hvort mús stykki út úr hljóðfærinu og sagði ég honum og Grími, að ef það kæmi fyrir, myndi ég stökkva upp á orgelið, jafnvel í miðri messu.

Þarna versta í prestakallinu, sem var allur Rauðasandshreppur, voru 30 bæir í byggð, þegar við komum, t.d. 5 heimili á Látrum, vestasta bæ á Íslandi.

Nú er þetta næstum allt í eyði. Fjölmennast var í Örlygshöfn, þar sem barnaskóli sveitarinnar var og félagsheimilið Fagrihvammur og minjasafn, en stofnandi þess og frumkvöðull var Egill Egilsson bóndi á Hnjóti, kvæntur Steinunni Ólafsdóttur Thorlacius frá Saurbæ. Síðar veit ég til, að sonarsonur Egils og Steinunnar, Egill Ólafsson, hefur veitt minjasafninu forstöðu.

Kirkjuhaldari í Breiðavík var Björn Loftsson, forstöðumaður drengjaheimilisins þar.  Hann tók afskaplega vel á móti okkur, hvenær sem eitthvað var um að vera í kirkjunni.

Eins var það á myndarheimilinu í Saurbæ, en á heimakirkjunni drukku allir messukaffi hjá mér. Það var mjög skemmtilegt og alltaf góð kirkjusókn, líka fólk úr öðrum sóknum. Á jóladaginn hélt ég veislu fyrir kirkjugestina.

Ekkert rafmagn var í Sauðlauksdal. Ég er svo óheppin að vera náttblind, en ekki var gott að bera olíulampa út í alls konar veðri og haustmyrkri. Áður langt leið keypti Grímur bensínmótor, sem hafður var í kjallaranum í húsinu og nú fékk ég góð ljós og gat meira að segja haft þvottavél og það sem mest var um vert, hrærivél í eldhúsinu. Endaði saga þessarar annars ágætu ljósavélar á því, að púströrið bilaði og lá við að yrði slys. Þá fengum við dísilvél og var vel um hana búið og mun sterkara rafmagn.

Bæði sögðum við hjónin, að ekkert þýddi að búa í sveit, nema hafa búskap. Keyptum við lömb og fengum auk þess gefins kindur frá góðum sóknarbændum. Þegar flest var, höfðum við 150 fjár og 6 kýr. Túnstæði á prestssetrinu er ákaflega fallegt. Jafnhallandi frá bæ og kirkju niður að vatninu. Stofnaði maðurinn minn búnaðarfélag ásamt öðrum og var jarðýta

TD9 keypt og plógur og herfi. Ræktuðum við mikið og fagurt tún strax á öðru ári og vísa ég mjög jákvæðum ummmælum um tún og búskap okkar til álits Prestssetranefndar 1962.

Mikill léttir við heyskapinn var að vísu dráttarvél, sem við keyptum strax, og að góðvinir okkar, séra Tómas Guðmundsson og frú Anna Sveinbjörnsdóttir á Patreksfirði, komu okkur til hjálpar við samantekt og hlóð séra Tómas alltaf úr hlöðunni. Við það má bæta því, að þau hjónin tóku einatt á móti gestum okkar, sem komu með Esjunni, en aðrar samgöngur við umheiminn en strandferðir Esjunnar voru ekki.

Úr vatninu veiddust á hverju sumri þrjú þúsund silungar að gömlu mati, sem reyndist rétt. Voru það ómetanleg hlunnindi. Drógum við fyrir í vatninu og var yfirdrifinn silungur í matinn: Soðinn fyrsta daginn, svo steiktur, þá silungsbollur, sem þóttu hið mesta hnossgæti. Börn og unglinga tókum við oft til sumardvalar eins og algengt var og man ég sérstaklega eftir litlum dreng, sem var kúasmali, af því að hann setti upp svo mikinn embættismannasvip, þegar hann rak kýrnar. Hann er nú lýtalæknir í Reykjavík, Jens Kjartansson. Kona nokkur sagði við mig, að börnum væri útjaskað í vinnu, þar sem þau væru í sumardvöl. Þau ummæli þóttu mér ósæmileg. Konunni þótti þrældómur að reka kýr, en ég gat frætt hana á því, að þegar ég var barn austur á Kiðjabergi þótti sjálfsagt, að börnin rækju kýrnar í haga og sæktum þær til mjalta, jafnvel þótt mannýgt naut væri  þar í stórum kúahópnum.

Meðal sumargesta vil ég geta um Laufeyju Pálsdóttur, vinkonu okkar úr Reykjavík. Hún bakaði mjög mikið við koksvélina í eldhúsinu, auk þess sem hún var sérstaklega upplífgandi á heimilinu. Kökurnar hennar komu sér vel eftir allar athafnir í kirkjunni, tvenn brúðkaup voru t.d. þá um sumarið. Við fyrstu hjónavígsluna átti að syngja sálminn: Hve gott og fagurt og yndælt er, en endurtekningin, sem er raunar víxlsöngur, ruglaði okkur svolítið.

Þá var Egill á Hnjóti að gifta sig.- Steingrímur Sigfússon tónlistarmaður frá Kollsá í Hrútafirði, sem var lengi organisti á Patreksfirði, aðstoðaði mig stundum, en ég hljóp oft í skarðið á Patreksfirði, þegar hann þurfti burtu á sumrin.

Einu sinn hringdi Trausti Árnason, sem var allt í öllu í slíkum málum á Patreksfirði, og sagði:

Ég sendi bíl eftir þér strax, því að þú verður að spila við altarisgöngu í kvöld. Hafði ég ráðrúm til að líta á messuskrána á söngloftinu og sá þá, að ég hafði aldrei heyrt fyrr lag né texta við einn sálminn. Allt fór vel, ég fór nákvæmlega eftir nótunum og kórinn kunni þetta ágætlega, en höfundur lags og ljóðs reyndist vera séra Einar heitinn Sturlaugsson, sem lengi var prestur á Patreksfirði.

Langa vetrarkafla var vegurinn eitt svell heiman að og yfir á Patreksfjörð, en það eru um 28 km. Raknadalshlíðin rétt innan við kauptúnið var alveg agaleg, ísilögð niður í fjöru.

Þegar við þurftum út fyrir, voru ægilegar skriður í sjó fram, nefndar Ytri- og Innriskriður. Svo var nú Hafnarmúlinn. Ef bjart var, þegar við komum til baka, sáum við að hjólförin voru á ystu nöf, vegarkantinum, en mjög brattar og háar skriður blöstu við. Fyrst fórum við á dráttarvélinni og sat ég þá í skúffunni aftan á með hemputöskuna og sálmasöngsbókina. Svo fengum við jeppa og var það mikil heppni. Þá voru keðjur á hjólum næstum liðlangan veturinn. Nágrannaþjónustu höfðum við á Barðaströnd, þá var yfir Kleifarheiði að sækja, en hún var alveg líðileg í brekkunum upp úr Ósafirðinum vegna mikilla fannalaga. Jarða átti móður Bjargar í Haga á miðjum vetri, ég þurfti með, annars spilaði Björg sjálf í Haga. Fórum við daginn áður og með snjóbíl úr Ósabrekkunum og upp á háheiðina. Til þess að lýsa því, hvernig jarðarfarir voru til sveita á þessum tíma, er frá því að segja, að fyrst var húskveðja eftir að allir höfðu borðað hádegismat. Tók þetta allt sinn tíma. Jarða átti gömlu konuna á Brjánslæk. Snjógöng voru alla leið og gekk sú ferð vel og var farið beint í kirkju. Við þessa útför hefi ég spilað á það kaldasta orgel, sem ég hef upplifað.

Fingurnir bókstaflega festust við nóturnar. Hafðist þetta þó af og eftir útförina var drukkið súkkulaði og kaffi hjá Guðmundi bónda á Brjánslæk, sem þá bjó enn í gamla prestshúsinu, og konu hans. Mikið var borið á borð á Brjánslæk, hvenær sem embættað var í kirkjunni.

Stæðileg kirkja var í Saurbæ. Hún fauk í heilu lagi í óveðrinu 31. janúar 1966, en það var eftir okkar tíð í brauðinu. Einu sinni var það í jarðarför í Saurbæ, að þegar konan hans Þórðar á Látrum, var að krossa yfir kistuna, rann hún til og datt ofan í gröfina, en þó var ekki hvasst. Þá sagði Þórður, en hann var mjög gamansamur og sá spaugilegu hliðarnar: Hún gat ekki fylgt honum lengra.

Lengi var í heimili hjá okkur Hafliði Ólafsson, sem fyrr bjó á Geitagili í Örlygshöfn. Hann var ókvæntur, en hafði alið upp dreng, og kunni öll heimilisverk. Það var hann, sem kenndi mér að gera slátur og ýmislegt annað í matreiðslu á stóru sveitaheimili. Það var gott að hafa hann, enda var hann líka skemmtilegur maður.

Einn þátt í félagslífinu má ég til með að nefna. Við færðum upp leikþætti næstum á hverjum vetri og  Trausti Árnason á Patreksfirði linnti ekki látunum, fyrr en við komum til Patreksfjarðar og sýndum þar við góðar undirtektir.

Þá lék sérstaklega vel með okkur stúlka, sem var hjá mér í námsvist, varð hjúkrunarkona og læknisfrú syðra. Þegar að var gáð, reyndist hún vera náfrænka Bessa Bjarnasonar leikara.

Þegar söfnuður hins nýstofnaða Ásprestakalls í Reykjavík hafði kosið prestinn í Sauðlauksdal lögmætri kosningu 1963, var komið að kveðjumessum vestra og lauk með kveðjusamsæti í félagsheimilinu í Örlygshöfn, sem byggt var meðan við vorum. Var þetta mikil veisla og tvö eða þrjú börn skírð. Árið eftir komum við að vígslu Breiðavíkurkirkju og bar séra Grímur þá nýjan hökul, sem kirkjunni hafði verið gefinn. Hann pantaði hljóðfæri í nýju kirkjuna, einnig í Hagakirkju og fleiri kirkjur vestra. Voru það ljómandi góð hljóðfæri.

Nú eru öll bændahjónin dáin, en þau voru mörg á rosknum aldri á árunum okkar í Sauðlauksdal. Aðeins er búið á örfáum bæjum. Sauðlauksdalur er einnig í eyði og prestakallið niðurlagt.

Byggt á viðtali Á:S. í útvarpsþáttaröðinni Öll þau klukknaköll 2008, tekið upp 2005.