14.11.2012 16:27

Úr bókinni Djúpar rætur

Birt með leyfi Sólveigar Önnu Bóasdóttur ritstjóra.

Minningarbrot um jólin. Eftir Sigríði  Kristjánsdóttur
Flutt í Kópavogskirkju fyrsta sunnudag í aðventu á kvennaárinu 1975 (stytt og endursagt)
Sigríður Kristjánsdóttir fæddist 7. október 1925 á Héðinshöfða á Tjörnesi og ólst upp á Húsavík.

Þótt desember sé dimmur
dýrleg á hann jól
með honum endar árið
og aftur hækkar sól.

Þessar ljóðlínur söngluðu löngum í hugum okkar barnanna á æskudögum mínum norður á Húsavík við Skjálfandaflóa. Og þótt oft væri dimmt yfir og kalt í veðri, liðu haustdagarnir og veturnæturnar, og fyrr en varði var desembermánuður genginn í garð með sínum sérstaka helgisvip, og ljósin í þorpinu fengu smám saman bjartari blæ eftir því sem nær dró jólum.

Ýmislegt er mér minnisstætt frá hinum dimmu desembervikum. Eftirvæntingin gagntók börnin og eplaangan fyllti loftið í búðunum, eftir skipakomu með jólavörurnar. En laufabrauðsdagarnir eru einhverjir skemmtilegustu og eftirminnilegustu dagar ársins. Þá daga voru ljósin bjartari og híbýlin hlýlegri og vistlegri en aðra skammdegisdaga. Þeir voru margir laufabrauðsdagarnir hjá okkur börnunum á Húsavík. Og þegar sá fyrsti rann upp, þá var enginn vafi á því að jólin voru á næsta leiti. Því var nefnilega þannig háttað, að við börnin fengum að taka þátt í laufabrauðshátíðinni hvert hjá öðru.

Það var fastur siður, að við gengum á milli húsa með vasahnífana okkar og bretti og hjálpuðum til hjá vinum og kunningjum. Þá var kátt á hjalla og keppst um að skera fallegar kökur. Húsfreyjan var snemma á fótum þennan dag, því að í mörg horn var að líta, allt var hreint og fágað. Ærið verk var það að hnoða og breiða út laufabrauðið og svo að stjórna barnahópnum, sem beið fullur eftirvæntingar að fá að byrja að skera og hjálpa til.

Þegar ég hugsa til þessara liðnu daga, þá finn ég glöggt, hve mikils virði það er að börn og unglingar fái að taka virkan þátt í undirbúningi jólanna og ýmsum störfum á heimilunum.

Þær raddir heyrast stundum að menn og konur leggi of mikið á sig til undirbúnings jólanna, en gleymi þá oft sjálfri jólahátíðinni og inntaki og tilefni hennar í öllu amstrinu. Þá er hollt að staldra við og íhuga í ró og næði, hvort öll fyrirhöfnin sé nauðsynleg til að menn skynji jólin rétt og geti notið hátíðarinnar sem þeir æskja sér. Þá er einnig forvitnilegt að skyggnast í sögu jólahaldsins og huga að því hvernig venjur og siðir í þeim efnum hafa þróast og breyst í tímans rás.

  

Síðustu vikurnar fyrir jólin eru kallaðar aðventa á kirkjunnar máli, eða aðdragandi að komu Krists og fæðingarhátíðar hans. Þetta ætti því að vera tími friðar, kyrrðar og íhugunar, svo að við séum búin undir að veita viðtöku fagnaðarerindi kristinnar trúar. Minnugar þessa ættum við húsmæður að taka með gleði og þökk í huga á jólaannríkinu, enda er það oftast sjálfskapað, og stofnað í þeim tilgangi að gleðja aðra, tengja fjölskylduna traustari böndum og sýna vinum sínum vinahót.
Þá er þetta sá tími er margir reyna af hjartagæsku sinni eða göfuglyndi að styrkja og gleðja vandalausa og þá sem eiga um sárt að binda og eru umkomulausir. Lífsins gáfum og gæðum er misskipt, og samkvæmt kristnum hugsjónum eigum við að gæta náunga okkar og hugsa til þeirra er verr eru settir en aðrir. Gleymum bara ekki að gleðjast sjálf og þakka fyrir að vera fær um að gera það.

Á þessum eyðslu- og umrótartímum, sem ríkja í kring um okkur er mikil ástæða til að hlýða á aðvaranir um að sóa ekki verðmætum heimsins, að eyða ekki náttúrulegum auðæfum á kostnað framtíðarinnar  og jafnframt að kasta kvorki andlegum né veraldlegum verðmætum á glæ.  Hófsemi í undirbúningi jólanna sem öðru mun jafnan reynast affarasælust.

Jólahaldið á sér langa sögu og hefur mótast á ýmsan hátt sem fæðingarhátíð Krists.
Margar venjur og siði höfum við lært af formæðrum og feðrum okkar og viljum helst halda þeim við, kenna þær óbornum kynslóðum. Því er þetta liður í þjóðlegri þróunarsögu og menningu okkar.
Hin rómverska kirkja sameinaði gamlan heiðinn hátíðisdag fæðingardegi Krists 25. desember, sem var samkvæmt júlíanska tímatalinu sólhvarfadagur. Menn trúðu því áður að hann væri fæðingardagur sólarinnar og höfðu lengi haldið leika með eldi og töfrabrögðum þennan dag.
En nú tók kirkjan í sína þjónustu þennan hátíðisdag, og við það breytti hann um svip.
Kristur er í Biblíunni nefndur “sól réttlætisins” og jólin koma með birtu og fagnaðarerindi kristninnar inn í dimman heim og fálmandi sálir mannanna með hækkandi sól. Þessi forna hátíð lifir í nokkrum táknum í jólahaldi okkar nú á 20. öldinni.

Í 300 ár hélt kirkjan hátíðlega páska og hvítasunnu, en ekki jólin. Það var ekki siður að halda hátíðlegan fæðingardag fólks til forna. Kirkjan hélt í fyrstu hátíðlega dánardaga dýðlinganna, en ekki fæðingardaga þeirra. En með tímanum vaknaði áhugi manna á fæðingardegi frelsarans. Jesús var hafinn yfir dýrlinga kirkjunnar. hann var frelsari mannkynsins. Hvenær hafði hann fæðst? Hann sem spámennirnir höfðu beðið eftir. Kristnir menn fundu hjá sér þörf fyrir að halda fæðingardag hans heilagan. Fyrst er vitað að árlega væri haldin minningarhátíð um komu Krists hjá litlu trúfélagi í Egyptalandi. Ýmsar heimildir eru til um þessar fyrstu jólahátíðir, sem voru haldnar hinn 6. janúar til minningar um skírn Jesú á opinberunardaginn.
Þar er greint frá söng og Biblíulestri og að hús væru skreytt með blómsveigum og grænum greinum.

Spönsk nunna hefur skrifað ferðasögu sína, en hún fór pílagrímsferð til Landsins helga árið 380 og dvaldist þar í 3 ár. Hún segir frá guðsþjónustu sem hún hlýddi á og að nóttina fyrir 6. janúar hafi stórir skarar fólks farið með biskupi sínum frá Jerúsalem til Betlehemm(um 5 km leið) til að halda hátíð í hellinum, þar sem talið var að fjárhúsið sem Jesús fæddist í hefði verið. Fyrir dögun hafi svo hópurinn snúið við til Jerúsalem og til upprisustaðarins með þúsundir logandi ljósa. Að kvöldi var svo haldin önnur guðsþjónusta, og það er ljóshafið frá kyndlunum ássmt söng og bænum sem er ríkast í frásögn nunnunnar.

Frá Róm og Landinu helga barst svo jólahaldið til annara kristinna landa og varð smám saman fast í sessi. Kristnir menn hafa því haldið sín jól í 16-1700 ár sem fagnaðar og þakkarhátíð.
Getum við ekki enn fundið fögnuð og blæ frá þessari frásögn nunnunnar, er við hugsum um og höldum okkar jól?
Í okkar íslensku bókmenntum eru margar frásagnir af jólum á fyrri tímum. Þótt þau hafi verið einföld í sniðum og fátækleg á mælikvarða okkar nútímamanna, hafa menn fengið fróun og tilbreytni frá hversdagsstriti sínu og andlegan styrk í hinni hörðu lífsbaráttu.
Við þekkjum öll fastar venjur og ýmsa siði sem ríkt hafa hér á landi frá fyrri tíð, bæði af frásögnum í bókum og munnmælum eldra fólks. Menn hafa ætíð átt annríkt í desember. “Aldrei var keppst við vinnuna, einkum ullarvinnuna og prjónaskapinn, eins og á jólaföstunni. Þá hraut líka oft staurbitinn sem sárabætur fyrir vökurnar og allt stritið,” segir í Íslenskum þjóðháttum, þar sem lesa má ýmislegt fróðlegt. allir þurftu að fá nýja flík til að klæða ekki jólaköttinn, og flestir fengu nýja skó og kerti. Sumir gerðu sér heimatilbúin jólatré úr eini eða sortulingi, en talið er að grenijólatré hafi ekki borist til lansins fyrr en um 1850.

En svo þekkjum við hve jólahaldið verður fjölbreyttara og  margvíslegra með bættum lífskjörum þjóðarinnar. Við lærum margt af öðrum þjóðum með auknum samskiptum við þær, við lærum fjölbreytni í mat og góðgæti og förum að skreyta hús okkar með grenigreinum og gljáandi glingri.
En við finnum það mörg hve vænt okkur þykir um gömlu jólasiðina eða þá siði sem viðhafðir voru í barnæsku okkar. Við viljum helst lifa aftur bernskujólin okkar og færast þannig aftur í tímann um stund, helst nær hofnum ástvinum í huga okkar. Það er eins og einhver töfrablær fylgi þessum gömlu venjum, sem veitir okkur öryggi og traust, um leið og hann tengir saman nútíð og fortíð og vekur ljúfar minningar um horfnar kynslóðir.

Í gömlu þjóðveldislögunum eru ákvæði um það hvernig jólahaldi skuli hagað. Snorri Sturluson segir frá því í Heimskringlu að Hákon Aðalsteinsfóstri sem kallaður var hinn góði hafi sett lög um að sameina heiðnar hátíðir jólahaldi, og sagt er frá því að konungar forðuðust bardaga og illvígi um jólin fyrir “helgar sakar”. Þá eru nefndir fyrsti, áttundi og þrettándi dagur jóla og skyldu þeir ásamt páskadegi vera helgustu dagar ársins, en annan, þriðja og fjórða dag jóla skyldi halda jafnhelga sem sunnudaga að öðru leyti en því að þá mátti moka úr fjósi og aka á völl.
Jólagjafir hafa ekki tíðkast að ráði hér á landi fyrr en á 20. öld, en þó er slíkra gjafa getið nokkrum sinnum í fornritum. í Egilssögu segir frá því, að Arinbjörn hersir gefur Agli” að jólagjöf gullsaumaðar silkislæður,” og í Gunnlaugssögu ormstungu er einnig getið um jólagjafir. Þessi siður er því ekki óþjóðlegur né nýr af nálinni, svo að óhætt er að halda hann í heiðri en í hófi, enda ber hann auðvitað vott um kærleika okkar til vina og vandamanna.

Og á sama hátt og okkur er ráðlagt að taka á móti guðsríki eins og börn er best að taka á móti jólunum með barnslegum huga og gleðjast yfir hverri smágjöf sem gefin er af heilum vinarhug.

Þáttur kvenna í sögu kirkjunnar og kristnihaldi þjóðanna er ekki fyrirferðamikill á blöðum mannkynssögunnar. Engu að síður má þó geta leiðum að því að konur hafi átt drjúgan þátt í útbreiðslu og eflingu kristninnar, með trúariðkunum sínum og hljóðlátum hversdagsstörfum og uppeldi barna sinna. En karlar hafa miklu ráðið um framvindu mála, og síðan hafa þeir skráð söguna sem oft hefur gengið með ófriði og skakkaföllum. Þá er alloft minnst á það, hvernig konur ganga á milli stríðandi fylkinga og reyna með því að efla bróðurþel og kærleika með herskáum mönnum. Þannig eiga þær sinn óbeina þátt í  hægfara framvindu til góðs í stormasömum heimi.