07.12.2012 15:45

Jólasiðir frá ýmsum löndum

Mörg börn á Íslandi eru farin að setja skóinn sinn út í glugga og vakna snemma á morgnana til þess að athuga hverju jólasveinninn hefur laumað í hann um nóttina. – Þessi siður er ævagamall og byrjaði þannig, að börnin settu skóna sína, fulla af höfrum, á þröskuld heimilis síns, handa kameldýrum vitringanna þriggja, svo að þau fengju eitthvað að éta á leiðinni til Betlehem. – Ef börnin voru hlýðin, brást það ekki, að vitringarnir skildu gjafir eftir í skónum.

 

Á Ítalíu og víðar eiga mörg heimili Presepio, sem er líkan af fjárhúsi og Jesúbarninu í jötunni.
Hlutir þessir eru vandlega varðveittir í fjölskyldunni og ganga oft í erfðir.

 

Í Bagdad hefur sá siður varðveist, að fólk brennir þyrninálum í garði sínum, eftir að jólaguðspjallið hefur verið lesið. Fylgst er nákvæmlega með því, hvernig nálarnar brenna, því að þær segja fyrir um hvernig heimilislánið verður á nýja árinu. Sálmur er sunginn meðan bálið brennur og síðan stökkva allir yfir öskuna og bera fram ósk.

 

Sérhver þjóð sem heldur jólin hátíðleg, virðist eiga sérstaka jólarétti. Íslenska laufabrauðið er eitt nærtækt dæmi.Margar fjölskyldur eiga líka sínar jólauppskriftir að smákökum og tertum.
Í Þýskalandi, Danmörku og fleiri löndum baka konurnar piparkökur fyrir jólin.
Í Póllandi eru bakaðar örþunnar kökur, oplatki, mótaðar á þær helgimyndir og þær blessaðar af prestunum.  Þar bíða menn með að borða þangað til einhver hrópar ”Þarna er stjarna!”
Þá óska menn hver öðrum gleðilegra jóla og setjast við matborðið. Síðan eru kökurnar, oplatki  gefnar sem jólagjafir og jafnvel notaðar sem jólakort. Pólverjar nota þær einnig við sérstaka athöfn, sem er í því fólgin, að þegar fyrsta stjarnan birtist á jólahimninum, brjóta þeir oplatki fyrir hvern annan og skiptast á jólaóskum.

 

Á Írlandi setur fólk logandi kerti í glugga húss síns til þess að lýsa Jesúbarninu á leið sinni.

 

Jólatréð er upphaflega komið frá Þýskalandi. Sagt er að Marteinn Lúther hafi verið fyrstur til að fara með jólatré inn í hús. Kvöld nokkurt þegar hann var að ganga í skóginum sá hann stjörnurnar milli trjágreinanna. Honum fannst tréð vera táknmynd fyrir Jesú, sem leyfði stjörnuher himinsins að veita jörðinni ljós.

Í Hollandi eru jólagjafirnar gefnar strax þann 5. desember. Það er kvöldið fyrir Sankti Nikulásardag. En hann er ekki haldinn hátíðlegur á Íslandi.

 
Höfum í huga að við getum sjálf skapað jólasiði í fjölskyldum okkar, sem munu ganga í erfðir til barna og barnabarna. Munum að margar af yndislegustu minningum okkar eru tengdar jólunum og undirbúningi þeirra.

<< Til Baka í Jólaefni >>