12.12.2012 15:13

Jólasaga eftir Selmu Lagerlöv

Prentvæn útgáfa
 

Jólasaga eftir Selmu Lagerlöv

Það var jóladagur. Við vorum einar í öllu húsinu, ég og amma mín. Allir aðrir voru farnir til kirkju. Amma var heima af því að hún var of gömul til að fara í langa ferð til og frá kirkjunni og ég af því að ég var of ung. Hvorug okkar var glöð yfir því að vera eftir heima. Við vildum báðar vera í kirkjunni á þessum helga degi og sjá jólaljósin og hlusta á gleðihljóma kirkjuklukknanna. Þar sem við sátum daufar í bragði hóf amma að segja frá:

Einu sinni á dimmri kaldri nóttu var örvæntingarfullur maður á ferð. Hann barði dyra á bæ sem hann kom fyrst að og kallaði: Hjálpið mér, konan mín hefur alið barn og ég verð að fá eld til að hlýja henni og barninu. En allir sváfu, enda var mið nótt og enginn svaraði manninum.

Maðurinn hélt göngu sinni áfram og þar kom að hann sá ljósbjarma langt í burtu, eins og þar logaði eldur. Hann hraðaði sér í átt að eldinum og sá að bjarminn kom frá báli sem logaði úti í haga. Hópur af sauðfé lá í kring um eldinn en gamall fjárhirðir sat utan við hópinn og gætti hjarðarinnar. Þegar maðurinn nálgaðist fjárhópinn sá hann að þrír tröllvaxnir hundar sváfu við fætur hirðisins. Þeir vöknuðu allir þegar maðurinn nálgaðist, litu á hann stórum spyrjandi augum en geltu ekki. Þeir risu á fætur og stukku að manninum. Einn hundanna beit í fót mannsins, annar í hönd hans og sá þriðji á barkann. En tennur hundanna hlýddu þeim ekki,
svo að þeir gerðu manninum ekki hið minnsta mein. Maðurinn ætlaði nú að halda áfram og ná í eldinn, en kindurnar lágu svo þétt saman og mynduðu lokaðan hring svo hann komst ekki áfram. Maðurinn greip þá til þess ráðs að ganga á bökum kindanna og svo undarlegt sem það var vaknaði engin þeirra. Þegar hann var alveg að komast að eldinum leit hirðirinn upp. Hann var gamall, geðvondur  maður sem var harður og illskeyttur við alla.

Þegar hann sá ókunna manninn nálgast greip hann hvassan broddstaf sem hann studdist við þegar hann rak féð á beit og skaut honum að manninum. En stafurinn þaut hvínandi fram hjá manninum, án þess að snerta hann og þeyttist langt út í hagann.

Maðurinn gekk þá til hirðisins og grátbað hann um að hjálpa sér með því að gefa sér örlítinn eld svo hann gæti yljað nýfædda barninu sínu og konunni sinni. Helst vildi hirðirinn neita manninum um þennan greiða, en þegar hann hugsaði um að hundarnir hefðu ekki gert honum mein, kindurnar ekki hlaupið undan honum og stafurinn ekki hitt hann varð hann hræddur og þorði ekki að neita honum um bón hans.

"Taktu eins mikið og þú þarft" sagði hirðirinn við manninn. En eldurinn var næstum útbrunninn. Það var ekki einn einasti kvistur eða drumbur eftir, aðeins glóð og maðurinn sá ekkert sem hann gæti borið hana í. Þegar hirðirinn tók eftir því endurtók hann að hann skildi taka eins mikið og hann vildi, en hló með sjálfum sér yfir því að maðurinn gæti þrátt fyrir allt engan eld fengið. En maðurinn beygði sig niður að eldinum, safnaði glóðinni upp með berum höndum og lagði hana í höfuðfat sitt. Og glóðin brenndi hvorki hendur hans né sveið höfuðfat hans og maðurinn bar glóðina burtu eins og ekkert væri.

Þegar hirðirinn sá allt þetta fór hann að velta því undrandi fyrir sér, hvers konar nótt þetta væri, þegar hundarnir bitu ekki, stafurinn geigaði og eldurinn brenndi ekki. Hann kallaði því á eftir manninum og spurði hann hvers konar nótt þetta væri eiginlega. Það væri eins og allt og allir væru miskunnsamir. Maðurinn kallaði til hans að hann gæti ekki sagt honum það ef hann sægi það ekki sjálfur. hann yrði að flýta sér til að veita konu sinni og barni hlýju.

En hirðirinn sagði við sjálfan sig að hann mætti ekki missa þennan mann úr augsýn fyrr en hann hefði fengið svar við spurningu sinni. Hirðirinn reis því á fætur og fylgdi manninum eftir uns hann kom þar sem hann bjó. Hann sá þá að maðurinn bjó ekki einu sinni í húsi heldur lágu kona hans og barn í helli og þar inni var ekkert nema berir grjótveggir. Þó hirðirinn væri harður maður og grimmur hafði hann áhyggjur af litla nýfædda barninu, að það myndi deyja úr kulda og vosbúð. Hann vildi hjálpa þessu fátæka barni. Hann tók því pokann af herðum sér og tók upp úr honum hvítt og mjúkt gæruskinn, rétti manninum það og bað hann að láta barnið sofa á því.

Á sömu stundu og hann gat sýnt þessu litla barni kærleika, opnuðust augu hans og hann sá þá sýn sem hann hafði aldrei áður séð og heyrði það sem hann hafði aldrei áður heyrt.

Hann sá hóp engla með sifurhvíta vængi og hélt hver og einn þeirra á hörpu og þeir spiluðu og sungu hárri röddu að í nótt væri Frelsarinn fæddur, hann sem myndi frelsa heiminn frá synd og sorg. Þá skildi hann hvers vegna enginn vildi gera öðrum neitt illt þessa nótt.

Englarnir virtust vera út um allt, hvert sem hirðirinn leit. Þeir voru inni í hellinum, úti fyrir og svifu á himnum. Þeir komu í stórum hópum og þegar þeir komu að hellinum námu þeir staðar til að líta á barnið. Þetta var svo ólýsanleg dýrð, gleði, sögur og fögnuður. Og það varð albjart, þó að nóttin væri dimm. Og hirðirinn varð svo glaður að hann féll á jörðina og lofaði Guð sem hafði opnað augu hans.

Nú andvarpaði amma og ég sá að það runnu tár niður kinnar hennar en það var um leið svo fallegt bros á andlitinu hennar.

Svo hélt amma áfram.
Það sem hirðirin sá nóttina sem frelsarinn fæddist getum við séð á hverri jólanóttu, því að englarnir koma til okkar ef við bara hefðum augu sem sæju.
Amma lagði nú hönd sína á höfuð mér og hélt áfram. Þessu máttu aldrei gleyma, því að það er eins satt og ég sé þig og þú sérð mig. Jólin eru ekki háð skrauti, gjöfum eða góðum mat. Ekki heldur kertaljósum, heldur að við höfum augu sem sjá dýrð Guðs.

Ég var aðeins fimm ára gömul þegar amma mín dó. Hún sagði mér mikinn fjölda af sögum, flestar man ég ekki eða mjög óljóst, en þessa sögu af fyrstu jólanóttinni man ég eins og ég hefði heyrt hana í gær. Eftir að amma hafði sagt söguna um jólanóttina söng hún svo fallega “Heims um ból.”
Þá hljómaði svo sterkt í eyrum mér: Heyra má himnum í frá, Englasöng, Allelúja.

Á hverjum jólum síðan ég var 4 ára hlusta ég eftir þessum englasöng.

<< Til Baka í Jólaefni >>