27.03.2013 18:05

Undir smásjá

endursögð gamansaga
Eftir Sigríði Sigurðardóttur

“En æðislegt” hrópaði ég glöð, þegar ég litaðist um í nýju íbúðinni okkar. Andri leit brosandi á mig og þrýsti mér laust að sér. Foreldrar okkar voru að sjálfsögu ánægðir fyrir okkar hönd, en mér virtust þau einum of áhyggjufull, algjörlega að ástæðulausu. Það var reyndar rétt hjá þeim að við værum ung að byrja búskap en hvernig höfðu þau farið að þegar þau fóru að búa.
Ég var viss um að við spjöruðum okkur. Það gæti varla verið svo mikið mál að elda og þrífa.

Ég var því reynar alveg óvön, en ég var fljót að læra. Andri var hræddastur um að vakna ekki við vekjaraklukkuna. Mamma hans hafði alltaf vakið hann á morgnana. En ég var aftur á móti viss um að hann mundi vakna sjálfur þegar hann vissi fyrirfram að mamma hans vekti hann ekki. Feður okkar voru þegar byrjaðir að bera inn dótið. Andri fór til þeirra að rétta þeim hjálparhönd en ég gekk inn í eldhús til mömmu og tengdamömmu. Ég andvarpaði ánægð. Mamma leit áhyggjufull á mig. “Viltu ekki að ég verði hérna hjá þér í nokkra daga og aðstoði þig við heimilisverkin Hanna mín ?” Ég leit hneyksluð á hana og áður en ég náði að svara henni, heyrðist í tengdamömmu: ”Já, við ættum að dvelja hérna um tíma og sjá hvernig þeim gengur.” Ég kom ekki upp orði. Og áður en ég vissi af höfðu þær ákveðið að flytja inn til okkar. Andri kom rétt í því inn í eldhús með einn af kössunum. Hann leit undrandi á mig þegar hann heyrði ráðabrugg þeirra. Ég yppti öxlum vonsvikin á svipinn og vonaði að Andri reyndi að fá þær til að skipta um skoðun. En hann gat ekkert sagt frekar en ég. Mér til mikillar gremju voru feður okkar ánægðir með þessa ákvörðun þeirra og áður en við Andri gátum opnað munninn voru þær fluttar inn til okkar.

Fenguð við þó að hafa hjónaherbergið útaf fyrir okkur, en þó aðeins með því skilyrði að við læstum ekki. Við urðum að sætta okkur við það, þar sem Andri átti svo erfitt með að vakna sjálfur við vekjaraklukkuna. Klukkan ellefu vorum við rekin með harðri hendi í rúmið.
Við gengdum hlýðin enda þótt það væri okkur mjög á móti skapi.
Andri stillti vekjaraklukkuna og tautaði fyrir munni sér að hann yrði að vakna við klukkuna í fyrramálið, annars losnuðum við aldrei við þær.  Það fór samt eins og móðir hans hafði óttast,  Andri var alls ekki fær um að vakna við vekjaraklukkuna. Ég fór á fætur um leið og Andri og reyndi að finna til morgunmat handa honum. Ristaða brauðið var brunnið og kaffið ódrekkandi. Tengdamóður minni varð að orði: “Almáttugur, það þarf að tyggja þetta kaffi, til þess að koma því niður.”  Ég varð sármóðguð og leit fýld á hana, en sagði samt ekkert.

Andri var orðinn of seinn í vinnuna og rauk út um leið og hann smellti kossi á vanga minn og sagði uppörfandi að hann keypti sér bara eitthvað að borða. Ég kinnkaði kolli dauf í dálkinn og gekk inn í hjónaherbergið. Ég leit á stórt og klossað furuhjónarúmið. Mér óx það sannarlega í augum að þurfa að búa um rúmið, en ég yrði að standa mig, annars myndum við aldrei losna við þær út af heimilinu. Hálftíma síðar yfirgaf ég herbergið ánægð með sjálfa mig. Mér hafði tekist það. Móðir mín kíkti inn í herbergið og tengdamóðir mín gerði slíkt hið sama. Ég sá á svip þeirra að þær voru ekki alls kostar ánægðar og vonleysið heltók mig.

Mér var svo mikið í mun að standa mig vel, að allt sem ég tók mér fyrir hendur fór úrskeiðis á einn eða annan hátt. Ég gat ekki gert neitt rétt. Allir smáhlutir runnu úr greipum mínum, og ég gekk á allt sem fyrir mér varð. Mamma og tengdamamma fylgdust með hverju fótmáli mínu og hreyfingum. Hvernig gæti ég losnað við þær ? Ég vissi af fyrri reynslu að það væri sama hvað ég segði, þær hlustuðu ekki á mig. Þær ættu alltaf síðasta orðið og við því væri ekkert að gera. Það var komið fram að hádegi og taugarnar voru farnar að titra. Þarna sátu þær við eldhúsborðið og litu spyrjandi á mig, það var eins og þær væru að bíða eftir að ég gerði eitthvað. Gat ég hafa gleymt einhverju, spurði ég sjálfa mig og fór yfir í huganum hvað ég væri búin að gera og hvað ég gæti hugsanlega átt eftir að gera.

Ég gat ekki munað eftir neinu, sem ekki mátti bíða. Ég leit á þær til skiptis og í kring um mig, ég sá ekkert athugavert. Mamma leit á mig og síðan á klukkuna. Þær höfðu einsett sér að segja ekkert nema ég bæði þær um aðstoð, en ég vildi ekki hjálp þeirra. Skyndilega kveikti ég á perunni. Ég var orðin of sein að setja upp matinn. Ég hentist að pottaskápnum en rak þá tærnar í borðfótinn.

 

Ég rak upp hátt og skerandi vein, um leið og ég greip um fótinn og hoppaði um með andlitið afmyndað af sársauka. Óbærilegur sársaukinn nísti mig og mamma og tengdamamma störðu furðu lostnar á mig. Þegar ég hafði jafnað mig aðeins haltraði ég aftur að skápnum og sótti stærsta pottinn og hellti úr fullum kartöflupokanum í hann. Í fáti mínu missti ég takið á pottinum sem skall á gólfið og kartöflurnar ulltu út um allt eldhúsgólfið. mamma og tengdamamma hrukku í kút og litu geðillar á mig. Ég skreið eftir gólfinu með pottinn í eftirdragi og tíndi upp kartöflurnar. Ég varð jafnvel að troða mér undir eldhúsborðið til að ná þeim. Ég kippti pottinum að mér og skellti honum alveg óvart ofan á tærnar á tengdamömmu sem veinaði upp. Ég dauðskammaðist mín og bað hana fyrirgefningar hvað eftir annað. Ég var gráti næst. Hvað var að mér ? Gat ég ekki gert neitt rétt, eða hvað?
Ég flýtti mér að tína kartöflurnar upp í pottinn og gerði mig líklega til að rísa á fætur en rak þá höfuðið harkalega upp undir borðplötuna. Ég blótaði í hljóði og stóð upp kafrjóð í framan.
Mamma og tengdamamma gláptu á mig. Ég rogaðist með þungan pottinn að vaskinum og stútfyllti hann af heitu vatni. Potturinn var orðinn svo þungur að ég gat engan vegin borð hann að eldavélinni.. Í vandræðum mínum leit ég biðjandi á mömmu, sem horfði spyrjandi á mig.
“Mamma,” bað ég hljóðlega. “Já, hvað,” spurði hún án þess að líta af mér.
“Hjálpaðu mér að bera pottinn að eldavélinni,” sagði ég í bænartón.
Mamma stóð upp og tók undir pottinn með mér og saman tókst okkur að koma pottinum á helluna.
Mamma andvarpaði, leit á mig og spurði svo hvernig ég ætlaði að fara að þegar hún færi héðan. Ég horfði niður á tærnar á mér ráðvillt á svipinn.

Eftir smá umhugsun sagði ég:
”Má ég ekki hringja í þig þegar ég þarf að setja upp kartöflur?” Mamma kinkaði kolli alveg dolfallin þegar hún hafði jafnað sig aðeins á spurningunni.
Tengdamamma hafði setið orðlaus af undrun meðan á þessu stóð og velt fyrir sér hvor okkar væri vitlausari, ég eða mamma.
Andri, pabbi og tengdapabbi komu heim í mat. Ég var að sjálfsögðu allt of sein með matinn, en þeir biðu allir mjög þolinmóðir. Einhvern vegin tókst mér að koma kjötbollunum saman og ofan í pottinn. Þær voru reyndar mjög lausar í sér og ólystugar, en ég var viss um að það mætti alveg borða þær. Sósan var aftur á móti ekki sérlega lystaukandi, hún var helst til of dökk og svo þykk að ég greindi ekki bollurnar frá sósunni. Og öllum til mikillar undrunar tókst mér að útbúa viðbrenndar kartöflur. Maturinn fór beint í ruslið. Pabbi var sá eini sem var mjög skilningsríkur og ég komst líka að því síðar, að hann hafði reynt eitthvað svipað þessu þegar hann fór að búa með mömmu. Pabbi bauð okkur öllum út að borða á hamborgarastað. Ekki gekk borðhaldið þar betur en svo að þegar ég gekk þaðan út var ég með matseðilinn framan á mér. Allir dauðskömmuðust sín fyrir mig og reyndu að láta sem þau þekktu mig ekki.

En þau komust ekki upp með það af því að á mér kjaftaði hver tuska. Ég gat ekkert að því gert, allt stressið kom út í óstjórnlegri þörf fyrir að tala.
Það sem eftir var dagsins notaði ég til að raða upp dótinu okkar. Það fór ekki fram hjá mér hvaða álit mamma og tengdamamma höfðu á uppröðuninni. En þær sögðu ekkert.
Ég tók nú samt sem áður eftir því að þær færðu til styttur og annað smádót í hillunum.
Ég heyrði tengdamömmu segja við mömmu, rétt fyrir kvöldmatinn, að réttast væri að þær elduðu sjálfar. Það væri ekki hægt að láta Hönnu um kvöldmatinn eins og hún fór með hádegismatinn. En svo komust þær að þeirri niðurstöðu að réttast væri að ég gerði þetta sjálf, annars lærði ég aldrei að elda.
Ég var alveg á nálum. Ég var viss um að ég myndi ekki lifa af annan eins dag og þennan.
Andri kom snemma heim úr vinnunni, mér til mikils léttis. Ég var þá ekki lengur ein með þeim. Mér gekk mun betur að elda kvöldmatinn, eða það hélt ég að minnsta kosti.

Ég fékk að stússast ein í eldhúsinu og tókst að koma sviðunum í pottinn án þess að missa neitt niður. Klukkutíma síðar lagði yndislegan ilm af nýsoðnum sviðum um íbúðina. Mamma og tengdamamma urðu hreyknar af mér og hældu mér í bak og fyrir, eða alveg þangað til þær litu ofan í pottinn. Í einfeldni minni hafði ég ekki athugað að hreinsa sviðin.
Tengdamamma kúgaðist og mamma skammaði mig fyrir sóðaskap. Mér hafði bara ekki dottið annað í hug en að sviðin væru tilbúin í pottinn. Og hvernig átti ég að vita að það væri eftir að taka heilann úr sviðunum. Tengdamömmu blöskraði svo mikið að hún tók saman allt sitt hafurtask og rauk á dyr.

Ég hafði víst gengið fram af henni í þetta sinn. Andri stóð í eldhúsdyrunum og hélt niðri í sér hlátrinum. “Hvernig getur hann hlegið að mér?” hugsaði ég reið. Ég sá ekkert broslegt við þetta. Ég var reyndar gráti næst.
“Ég hef bara aldrei séð, né vitað um annað eins og þetta, Hanna. Þú ert gersamlega óhæf í sambúð,” sagði mamma reið og æst. Pabbi greip framm í fyrir henni og minnti hana á fyrstu árin í sambúð þeirra. Mamma snarþagnaði og strunsaði út. Pabbi sagði mér þá sitt lítið af hverju frá þeim árum, mér til mikillar huggunar.

Við Andri vorum ein, alein. Þær voru farnar. Það var sem þungu fargi væri af mér létt.
Á einum sólarhring hafði ég ofboðið þeim.
Næstu vikur og mánuði sem fóru í hönd, notaði ég til að æfa mig í eldamennskunni. Mér gekk allt betur eftir að mamma og tengdamamma fóru.
Auðvitað var maturinn misgóður hjá mér, en hann fór aldrei í ruslið.
Það er langt um liðið síðan ég steig mín fyrstu spor í eldamennsku. Þó er það svo að enn í dag  fer allt úr skorðum, þegar mamma eða tengdamamma koma í heimsókn.
Ég get ekki með nokkru móti boðið þeim í mat og lái mér hver sem vill.