25.07.2014 00:00

Hvað er lífið ?

 

Úti í skóginum var sól og sumar. Fuglarnir flögruðu syngjandi milli trjágreinanna. En svo urðu þeir þreyttir og settust niður til að hvíla sig. Það ríkti þögn í skóginum.

Skyndilega var hún rofin.

Ofurlítill söngfugl spurði spekingslega: “Hvað er lífið eiginlega?”  Svolítill lævirki svaraði: “Lífið er söngur”. “Nei það er orusta í myrkrinu”, sagði moldvarpan, því að hún rak einmitt höfuðið upp úr moldinni í sama bili.
“Ég held að lífið sé þróun”,  sagði rósin. Hún breiddi út blöð sín í sólskininu.
Fiðrildi kom fljúgandi, kyssti blöð hennar og hrópaði: “Lífið er eilíf gleði”.
“Stutt sumar er réttnefni”, suðaði flugan. Hún flaug önnum kafin framhjá.
“Lífið er einungis slit og strit”, suðaði mauraflugan. Hún lagði af stað með strá, sem var mikið lengra en hún sjálf.
Ský dró fyrir sólu og það tók að rigna. Þá var eins og hvíslað væri hægt og þunglega: “Lífið er aðeins tár”.
“Ekkert yðar segir satt. Lífið er frelsi og kraftur”. Það var örninn, sem kallaði þetta. Hann klauf loftið með sterkum hátignarlegum vængjatökum.


Vísindamaður nokkur slökkti ljósið á lampanum í rannsóknarstofu sinni og andvarpaði um leið: ”Lífið er sífelldur skóli”.
 


Eftir götu í stórborginni gengu tveir ungir menn. Þeir voru á leið heim til sín. Nóttinni höfðu þeir eytt í svalli og munaði. Annar þeirra stundi: “Lífið er aðeins ein óuppfyllt ósk”. Austanblærinn, sem boðaði komu morgunsins, hvíslaði hljóðlega: “Lífið er ævarandi leyndardómur”.
Þá sveipaðist loftið í austri logarauðum bjarma. skýin og trjátopparnir lauguðust gylltu geislaflóði. Og þegar sólin heilsaði hinni vaknandi jörð, þá hljómaði í fullkomnu samræmi: “Lífið er aðeins upphaf”.


Fyrir Nítján öldum var uppi maður, meiri en flestir aðrir, Páll postuli. Á nafn hans hefur brugðið ljóma frá Heilagri Ritningu. Í stríði lífsins og hvíldarlausri starfsemi ferðaðist hann land úr landi, og var að síðustu varpað í fangelsi.
Í fangelsinu ritaði hann: ”Lífið er mér Kristur”.


Jesús sagði: “En í því er hið eilífa líf fólgið, að þeir þekki þig, hinn eina sanna Guð,
og þann sem þú sendir Jesúm Krist”.    Jóh. 17. 3.