Holtasóley

Eftir Ólöfu Ólafsdóttur Briem

Blóm ársins 2004

Upp við hamra háa
holtasóley grær
yfir laufið lága
líður sunnanblær.
Opin hamrahöllin
heitan kveður dag.
Nóttin faðmar fjöllin
fyrir sólarlag.

Skuggi um landið læðist
lengst skín sól á tind
Holtasóley hræðist
hvorki svefn né vind.
Hvít og hrein sem mjöllin
hátt við klettabrún
ánægð yfir fjöllin
augum rennir hún.

Ertu að horfa á háa
hamravegginn þinn
eða breiða bláa
bjarta himininn,
eða ertu að líta
yfir fjallahring.
Blessað blómið hvíta
bjart er allt í kring.

Finnst þér ekki fagur
fjallaheimur þinn,
dýrðlegur hver dagur
dýrðleg kvöldsólin.
Þegar hamrahallir
hjúpar aftanskin.
Sólina eiga allir
alls staðar að vin.

Undir hvelfing heiðri
hljóðnar sí og æ
hvílist fugl í hreiðri
hvílist fólk á bæ.
Láttu augun ljúfu
lokast blómið mitt,
miðri á mosaþúfu
mjúkt er rúmið þitt.

Breiðist dögg um dali
dökknar loftið blátt
sumarblærinn svali
syngur hægt og lágt.
Burtu er sólin blíða
byrgðu þig nú hljótt.
Ekki er lengi að líða
lognblíð sumarnótt.
 

Ólöf (1913 " 1944) var sonardóttir sálmaskáldsins góða sr. Valdimars Briem ( 1848 " 1930) á Stóra Núpi í Gnúpverjahreppi Árnessýslu.

Foreldrar hennar voru Katrín Helgadóttir frá Birtingarholti í Hrunamannahreppi og sr. Ólafur Valdimarsson Briem 1875 " 1930, prestur á Stóra Núpi frá 1918 til dauðadags.. Létust þeir báðir sama ár feðgarnir , annar í hárri elli, hinn á besta aldri.

Ólöf lést í blóma lífsins á 31. aldursári. Hún var gift Jóhanni K. Sigurðssyni bónda og bjuggu þau á Stóra Núpi.

Um Ólöfu segir í " Gengnar slóðir " Riti sambans sunnlenskra kvenna í greininni um Kvenfélag Gnúpverja:

"Ólöfu var margt til listar lagt. Eitt sinn þegar ungmennafélagið lék Skugga Svein, málaði hún öll leiktjöldin af mikilli list. Stutta leikþætti bjó hún til, og létt var henni um að kasta fram stöku. Hún dó um þrítugt og var að henni mikil eftirsjá.. Hún var vel hagmælt og skemmtileg í besta máta." Ólöf var systir Jóhanns Briem listmálara.

Heimildir: Guðfræðingatal 1847 " 2002.
Gengnar Slóðir 1978.

Meira um Holtasóley

Holtasóley (Dryas octopetala), ættkvísl plantna af rósaætt; skriðulir smárunnar, vaxa einkum á norðurslóðum, segir í íslensku alfræðiorðabókinni útg. 1992.

Í grasafræði eftir Geir Gígja útg. 1961 er henni lýst svo: " Blómin stór. Krónublöð 8 eða fleiri. Laufblöð dökkgræn að ofan, en hvítloðin að neðan. Vex á holtum og melum. Blómgast í maí."

Í íslenskri Flóru eftir Ágúst H. Bjarnason og Eggert Pétursson útg. 1983 segir: "Te af blöðum ásamt blóðbergi og vallhumli var talið styrkja brjóst og maga og þykir besti drykkur."

Einnig:"Sú var trú manna fyrrum, að rótin drægi til sín peninga, væri hún notuð á réttan hátt, og var hún því kölluð þjófarót."