Brostu

Brostu til barnsins litla,
sem bugast við táraský.
Það brosir aftur með opnum vörum
og augu þess ljóma á ný.

Brostu til sjúklingsins særða
er sársaukinn hniklar brá,
hann brosir aftur og eymslin dvína
og örvast hans bata þrá.

Brostu til syrgjandans sollna,
er sýtir og harmar um nótt,
hann brosir aftur og sorgirnar sefast
og sálin fær nýjan þrótt.

Brostu til magnþrota mannsins,
sem mæðist á torsóttri leið,
hann brosir aftur og fjörgast á fæti
og finnst nú að brautin sé greið.

Brostu til félagans fallna
í foræði lasta og synd,
hann brosir aftur og lítur lífið
í ljósari fegurri mynd.

Brostu til örvasa öldungs,
sem allt virðist fokið á glæ,
hann brosir aftur og yngist í huga
og ellin fær ljúfari blæ.

Brostu til deyjandans dapra,
það dregur úr helstríði manns,
hann brosir aftur og brosið lifir
í brestandi augum hans.

Brostu, í hvívetna brostu,
því brosið á sefjandi afl,
en brostu þannig, að breytist sífellt
til batnaðar mannlífsins tafl.

Brostu til alls og allra
í árvakri mannúðargjörð,
og brosið mun birtast þér aftur
í brosi - frá himni - og jörð.

Magnús frá Skógi á Rauðasandi