Land mitt hrópar

Bæn frá Suður-Afríku

Hróp berst frá landi mínu,
spjóti er lagt í síðu þess.
Börn þjást, tár og blóð
streyma sem regnflóð.
Land mitt hrópar:
Allt of margir
týna lífi.
Við áköllum þig Guð. Hvar ert þú?
Hvert er svar þitt? Við leggjum við hlustir.
Í sársaukanum komum við auga á þinn kross,
skynjum í eymdinni að: þú ert með oss.

Hróp berst frá landi mínu,
frá vegalausu hungruðu barni.
Þjáning og ótti í róm,
framtíðin auðn og tóm.
Land mitt hrópar,
flóttamenn um allt.
Við áköllum þig Guð. Hvar ert þú?
Hvert er svar þitt? Við leggjum við hlustir.
Í kvölinni eygjum við þinn kross,
sem flóttamaður gengur þú með oss.

Hróp berst frá landi mínu,
frá grátbólgnum andlitum.
Múrinn mannlífs binding,
morðtól, dómur, pynding.
Land mitt hrópar
þjáðri röddu.
Við áköllum þig Guð. Hvar ert þú?
Hvert er svar þitt? Við leggjum við hlustir.
Ofurseld hatri eygjum við þinn kross,
ótti þinn í Getsemane styrkir oss.
Hróp berst frá landi mínu,
frá þúsundunum, fullt eftirvæntingar.
Í von um frelsi,
lausn frá helsi.
Land mitt hrópar,
mig langar að lifa - lifa.
Við áköllum þig Guð. Hvar ert þú?
Hvert er svar þitt? Við leggjum við hlustir.
Sjá, þar er gröf þín, bak við þinn kross,
- hún er tóm - af því að: Þú ert með oss.

(Þýtt A.S.)