Óður til sauðkindarinnar

eftir Þorfinn Jónsson frá Ingveldarstöðum í Kelduhverfi

Það er við hæfi nú á þessum tímamótum, þegar fækka ´a búum, bændum og bústofni aðbirta þenna óð til sauðkindarinnar. Sjaldan hefur hún verið mærð með jafn eftirminnilegum hætti.

Mig hefur oft langað, ef það gæfist næði,
íslenskri sauðkind helga lítið kvæði.
Sæma hana nokkrum sannleiks-hlýjum orðum
samskiptin þakka bæði nú og forðum.
Enginn á stærri þátt í lífi þjóðar
er þraukaði af í landi íss og glóðar.
Þolin og hörð í þrautum, hvað sem dynur,
þúsund ár mannsins bjargvættur og vinur.
Árið um kring í sælu, sorg og kífi
samtvinnast kindin bóndans starfi og lífi.
Ef leið henni vel var sól og bjart í sinni,
svartnætti ef það þrengdi að fjárhjörðinni.
Ef sauðkindin féll á hörðu hafísvori
hungursins vofa sást í hverju spori.
Þegar hún hvarf var bjargarvonin brotin,
brátt var því mannsins kraftur líka þrotinn.
Sjáum við gegnum móðu myrkra alda,
mannfelli og hörmung ísavetra kalda.
Sést ennþá glöggt á söguspjöldum myndin,
samspilið sterka, landið, fólkið, kindin.
Frá útskagatá að efstu byggðardrögum,
átti hún sterkan þátt í fólksins högum.

Einnig hjá þeim er saðning sóttu úr hafi,
sauðkindin varð þeim yls og heilsugjafi.
Iðjusöm höndin úr ullinni spann þræði,
ofin og prjónuð sterk og skjólgóð klæði.
Fólkinu einnig gaf í skóna skæði,
skapaði gott og orkumikið fæði.
Þá var hún mönnum einnig gleðigjafi,
göngur og leitir sjást í ljóma trafi.
Minning frá heiðargeimsins glæsta veldi
geymist að æfidagsins hinsta kveldi.
Mjög gleður auga hjörð í góðum haga,
hraustleg og frjáls um bjarta sumardaga.
Með sambandi slíku leysist leiðans vandi,
lifandi er starfið hollt og mannbætandi.
Hún reynist vera afbragð uppalandi ótal kynslóða í þessu landi.
Löngum var börnum þroskaþjálfinn besti,
það reyndist mörgum haldgott vegarnesti.
Frá bernskunnar dögum lifa ljúfar stundir,
lömbin er hoppa frjáls um tún og grundir.
Smölun og réttir, gjöf á garðastalli,
gleðin að heimta sína kind af fjalli.
Hefur nú risið áróðursins alda,
eyðingu landsins sauðfé á að valda.
Manndómur þeirra aldrei skært mun skína,
skítkast sem hefja á lífgjafana sína.
Hollt mundi þeim sem um landspjöll lengi þylja,
líta til baka, meta, vega og skilja.
Spakmælið forna, að reyna þorrann þreyja,
þrauka og berjast, lifa eða deyja.
Vonandi á hún enn um framtíð langa,
óbyggðarslóðir frjáls og örugg ganga.
Ef sauðkindin færi úr fjallagróðurs lundi,
fegurðin minnkar, Ísland smækka mundi.