Jólakertið

Jólakertið


Ég man það fyrir mörgum liðnum árum
er mamma kom með jólakertið inn.
Ég hafði grátið, grátið beiskum tárum
en gleymt er nú hvað vakti harminn minn.

Þá sagði mamma: ?Svona er Guð þér góður,
hann gaf þér jólin, sjáðu kertið þitt.
Hann elskar þig, þú átt hann fyrir bróður
og ekki máttu gráta barnið mitt.?

Það varð svo bjart, ég brosti gegnum tárin
en blessað jólaljósið við mér skein.
Og eftir mörgu, mörgu horfnu árin
er minning þessi ennþá ljúf og hrein.

Og jafnan eiga jólin töframáttinn
er jólanóttin fyrsta í sér bar.
Þótt öldin nýja hafi annan háttinn
er hjarta barnsins líkt og áður var.

og jólaljósin ljóma í austur, vestur
og lýsa þeim er heyra vilja og sjá
til hans er öllum reynist bróðir bestur
og börnin huggar ætíð stór og smá.

Margrét Jónsdóttir.
 

Margrét Jónsdóttir (1893 ? 1971) var ritstjóri barnablaðsins Æskunnar 1928 ? 1941.
Árið 1993 var öld liðin frá fæðingu hennar og af því tilefni gaf Æskan út bók með úrvali barnaljóða og söngva eftir hana. Þar er þetta fallega jólaljóð.
Margrét var fædd á Árbæ í Holtum, Rangárvallasýslu. Hún var kennari og afkastamikill rithöfundur. Eftir hana liggur fjöldinn allur af ljóðum sögum og leikritum, meiri hlutinn ætlaður börnum.