Fjárhús úr pappa


Jólasaga eftir Svavar A. Jónsson

Það var eitthvað svalt við glæsileikann í nýju íbúðinni þeirra hjónanna Kristjáns og Ásgerðar. Hann bar ef til vill frekar vitni um mikinn smekk en góðan. Íbúðin var tilkomumikil en laus við innileika og hlýlegheit.
Gólfin voru lögð parketi og marmaraflísum á víxl. Húsgögnin gáfu tvennt til kynna:
Í fyrsta lagi höfðu húsgagnaverslanir í dýrari kantinum verið heimsóttar ötullega af íbúðareigendum og í öðru lagi voru þeir í góðum efnum, enda á fimmtugsaldri og allt basl að baki.
Fyrir nokkru voru húsakynni þeirra Kristjáns og Ásgerðar kynnt í tímariti nokkru, sem fjallar um vistarverur. Þar gaf að líta margar litmyndir úr hinum ýmsu herbergjum íbúðarinnar ásamt upplýsingum um hvar flísar, ljós og húsmunir hefðu fengist. Að sjálfsögðu var allt í röð og reglu á þeim myndum, eins og jafnan, þegar gerð er grein fyrir slíkum draumaíbúðum.
Röðin og reglan kom samt engum á óvart sem þekkti þessi sómahjón. Það var allt með þeim hætti inni hjá þeim. Svarti sófinn í stofunni var ávallt nákvæmlega á sínum stað. Púðarnir í honum líka. Mjúk birta lampans í horninu brást aldrei. Hvergi sást fingrafar, hvergi rykkorn, hvergi neitt. Óhreinir sokkar voru í óhreinatauskörfunni, en ekki á gólfinu í svefnherberginu. Tóma svalafernan og tómi kartöflupokinn voru í ruslapokanum, en ekki á borðinu framan við sjónvarpið. Þú gast líka reitt þig á að ruslapokinn lá ekki samanhnýttur á gólfinu fyrir framan vaskaskápinn, heldur var hann kominn út í sorptunnu. Þetta var í sem stystu máli algerlega fullkomið heimili og ekki nóg með það, eigendurnir voru fullkomnir líka.
Þau voru bæði vel metin og í góðum stöðum. Þau voru vammlaus. Líf þeirra var í jafn föstum og ábyggilegum skorðum og heimilið. Kristján og Ásgerður létu aldrei hvarfla að sér að gera nokkurn skapaðan hlut undirbúningslaust. Hann stimplaði sig inn í vinnuna í heildsölunni, þar sem hann seldi ryksugur, á slaginu átta. Hún stimplaði sig inn í bankann, þar sem hún var gjaldkeri, á nákvæmlega sama tíma.
Barnabörnin voru orðin fjögur, en þau röskuðu engu í þessu háttbundna líferni, ekki frekar en börnin höfðu gert. Nei, þau Kristján og Ásgerður létu ekki slá sig út af laginu. Heimilið lét aldrei á sjá þó að fjölskylduboð hefðu staðið yfir, enda mátti öllum ljóst vera hvað mátti og hvað mátti ekki innan veggja þess, eftir tveggja ættliða strangt uppeldi.
Vart þarf að taka fram að þó að þessi fjölskylduboð hafi yfirleitt verið mjög glæsileg, vantaði innileikann og hlýlegheitin í öll samskipti fjölskyldunnar. Þar var frekar rætt um yfirborð en innihald. Fullorðna fólkið ræddi gjarnan sín á milli um vörumerki og verðlag. Það ræddi mjög oft við börnin um einkunnir og frammistöðu í íþróttum. Ekki var algengt að börnin töluðu nokkuð saman ein sér. Þau sátu jafnan nýþvegin og greidd á milli fullorðna fólksins og dirfðust sjaldan eða aldrei tala nema á þau væri yrt.
Samt var nóg að tala um, því þetta fólk var langt frá því að vera tilfinningalaust. Því gat sárnað, það gat hatað og kunni jafnvel að elska líka. En hér bar sig enginn á torg. Enginn þorði að afhjúpa sig í návist annarra, ekki einu sinni ættarhöfuðin, þau Kristján og Ásgerður.. Oft hafði það hvarflað aðþeim að trúa hvort öðru fyrir sínum hjartans málum, en orðin höfðu ætíð kafnað í hálsum þeirra á leið frá brjóstunum fram á varirnar. Tilfinningar og innileiki voru orðin óviðeigandi á þessu kalda heimili.
Jafnt hinn sárasti ami og dýpstu vonir höfðu aldrei líkamnast í orðum í þessarri fjölskyldu, því þar voru allir hræddir við að sýna hver öðrum umbúðalaust nekt sína og svipta um leið hulunni af mennsku sinni og ófullkomleika.
Þau voru í svolitlum vanda stödd ein jólin, Kristján og Ásgerður. Þau tóku upp pakkana sína í ró og næði á aðfangadagskvöld, eftir að sameiginlegri máltíð fjölskyldunnar var lokið og börnin og barnabörnin voru farin heim. Uppþvottavélin malaði þægilega í eldhúsinu. Ruslið með kyrfilega notuðum jólamunnþurrkunum og beinunum úr hamborgarhryggnum var komið út í tunnu. Út úr einum pakkanum , sem var nokkuð stór og með áletruninni ?Til: ömmu og afa, Frá: Binna og Sidda?, kom hlutur, sem hjónin áttuðu sig ekki almennilega á í fyrstu. Binni og Siddi voru yngstu barnabörnin, fimm ára tvíburar. Við nánari eftirgrennslan og athuganir kom í ljós að þessi hlutur var lítið líkan af fjárhúsinu í Betlehem. Trúlega höfðu þeir bræður verið að iðja við þetta á leikskólanum undanfarnar vikur. Inni í fjárhúsinu voru persónur, sem áttu ábyggilega að vera þau María og Jósef. Þau hjónakornin krupu við jötu og í henni var Jesúbarnið, eða þá ályktun drógu þau Kristján og Ásgerður altént.
Öll var þessi smíði næsta ófullkomin og bar barnslegri natni glöggt vitni. Litir allir fjarstæðukenndir, bómullarhárið á Maríu rytjulegt og þvælt, Jesúbarnið sköllótt og rangeygt. Límklessur hér og þar. Fjárhúsið skakkt og skælt, og hvergi á því rétt horn.
Þetta fjárhús passaði engan veginn inn í þessa íbúð. Samt var afráðið að láta það standa í mjúkri birtu stofulampans í horninu þessi jól.
Þó að þetta fjárhús skorti allan ytri glæsileika og fegurð varð Kristján þess engu að síður áskynja þessi jól, að það átti einhvern dularfullan þokka, sem hann kunni engin skil á. Fljótlega fór Ásgerður að taka eftir því að bónda hennar dvaldist oft í stofunni. Þar sat hann í leðursófanum og starði á fjárhúsið heilu tímana. Þess á milli var hann í þungum þönkum. Ekkert ræddu þau hjónin þó saman um þetta, enda ekki venjan að ræða slíkt á heimilinu.
Það komu áramót og hversdagurinn hélt innreið sína á nýjan leik, þó að jólaskrautið fengi að hanga fram á þrettándann. Allt virtist vera að komast í sínar eðlilegu skorður. Skömmu eftir þrettánda er svo hringt til Ásgerðar, þar sem hún er við vinnu í bankanum. Dóttir hennar er í símanum:
?Mamma, farðu heim eins og skot. Ég held að pabbi sé orðinn vitlaus! Þegar ég ætlaði að sækja tvíburana í leikskólann um hádegið var mér tjáð að afinn hefði komið að sækja þá. Ég átti von á honum hingað heim, en þegar hann kom ekki, hélt ég að hann hefði ef til vill farið með þá niður í heildsölu, því það ansaði enginn heima hjá honum. Þar var mér sagt að pabbi væri kominn í sumarfrí! Ætlaði sér aðvera í fríi út mánuðinn! Hann yrði heima, en svaraði ekki í síma!?
Ásgerður brást skjótt við og brunaði í ofvæni heim. Og þvílík aðkoma þar! Poppkornsbrælan fannst út á bílastæði. Allt á rúi og stúi inni í íbúð. Leikfangabílar um öll gólf og inni á stofugólfi sat afinn með tvíburunum við splunkunýja bílabraut.

Sófinn kominn úr skorðum. Hávaði mikill.
?Hvað gengur hér á?? hrópaði eiginkonan skelfingu lostin.
Kristján lagði frá sér bíl og reis hægt upp. ?Ég er að leika mér við drengina mína.
Ég er kominn í sumarfrí og ætla að nota það til að leika mér við drengina mína.?
Hvað hefur komið yfir þig maður? ?Yfir mig? Já, það er góð spurning. Ég hefi ekki minnstu hugmynd um hvað hefur komið yfir mig. Mig langar heldur ekki vitundarögn til að vita hvað hefur komið yfir mig.
Kannski einhver geðveikiaðkenning, en það gerir bara ekkert til, því mér hefur aldrei liðið betur.?
Síðan brosti hann svo barnslega og einlæglega að Ásgerður komst ekki hjá því að sjá að manninum hafði virkilega aldrei liðið betur.
Kristján dró konu sína að fjárhúsinu ólögulega, sem enn stóð í horninu. Þau þurftu að klofa yfir alls kyns dót og drasl á leið sinni. Hann benti á fjárhúsið og sagði:
?Sjáðu þetta fjárhús og sjáðu svo þessa fínu íbúð okkar. Þetta eru eins og tveir heimar.
Af hverju fæddist Jesús ekki inni í svona fínni íbúð? Íbúðin okkar er fín, en samt er þetta ómerkilega pappahýsi fulltaf guðdómleika, tign og hlýju.
Ég uppgötvaði galdur við að virða þetta fjárhús fyrir mér, galdur einlægninnar. Það er ekkert einlægt í lífi okkar og þetta ómerkilega líkan er sennilega það eina einlæga í þessari íbúð og þessari fjölskyldu, Ásgerður mín. Ég fór að hugsa um að þó að við ættum margt, hefðum við mörgu sóað. Við erum að fjarlægjast hvort annað. Og ekki nóg með það. Við erum að fjarlægjast börnin okkar. Barnabörnin okkar þekkjum við varla. Við tölum varla um hluti, sem máli skipta. Við erum hrædd við að tala um okkur sjálf. Og það sem verra er: Allt líf okkar ber þess vott að við erum hrædd við okkur sjálf..?
Svo pírði hann augun og sagði:
?Svo fór ég að hugsa um hvað gerðist í þessu fjárhúsi á sínum tíma.
Þar gerðist Guð maður, og fyrst Guð sjálfur þorði að vera maður, hvers vegna ætti ég þá ekki að þora það??
Að svo mæltu tróð hann munninn út af poppi og lét sem hann sæi ekki að annar tvíburinn skvetti úr appelsínflösku yfir svarta leðursófann.
Svo stóðu þau þarna, tvær manneskjur í mjúkri birtu og uppgötvuðu að það var allt í lagi að vera maður sjálfur, enda nýbúin að finna að jafnvel ófullkomnustu hlutir á borð við fjárhús úr pappa geta birt fullkomin og háleit sannindi.