Hví leikur þú þitt lag?

 

Hví  leikur þú þitt lag við troðna slóð

og lætur augun dyljast bakvið gler?

Var söngvaþörfin borin þér í blóð

sem blæst í hörpu þegar lengjast fer

hver skuggi og þú skynjar sára þrá

og skilur að þinn eini draumur var

að yrkja meðan aðrir gengu hjá

þinn óð á bekk við steinlagt torgið þar

sem sól á himni heit og rjóð sem rós

slær roða á vegg úr hvolfsins djúpu lind

uns fellur dagsins fljót í kvöldsins ós

og flóðið með sér hrífur þína mynd?

Hvað varð um lag sem leikið var í gær?

Það lag er þögn en tónn þess hreinn og skær.
 

Hjörtur Pálsson