Bænaljóð eftir Sigurjón Ara Sigurjónsson

(Lag: Ísland er land þitt.)

Þegar ég hljóðlega huggunar leita,
harmurinn nagandi umlykur mig,
bið ég þig einlægt, mér ögyggi veita,
opna mér leið til að treysta á þig.
Leystu burt efann úr örþreyttu hjarta,
ótta minn sefaðu, gefðu þinn frið,
svo lifa ég megi í ljósinu bjarta,
ljáðu mér styrk, þér að ganga við hlið.

Þú hefur kennt mér að lesa og læra,
lestina forðast það mest sem ég má,
þegar ég leita í, ljósið þitt skæra,
og lauga mín augu, svo ég megi sjá.
Æðrulaus geng ég mót örlögum mínum,
auðna mín öll er í hönd þinni nú,
val mitt er gangan á veginum þínum,
veittu mér einlæga, staðfasta trú.

Lof mér að þiggja með þakklátu hjarta,
að þorsta minn slekkur þín veitandi önd,
veittu mér leiðsögn í ljósinu bjarta,
leggðu mér brauð þitt í útrétta hönd.
Gef þú mér styrk til að styðja þann smáa,
stuðningur minn verði öðrum það skjól,
sem ég hefi öðlast við altar þitt háa,
einlægni þá sem mér auðmýktin fól.

Nú er ég hljóðlega huggunar leita,
og harmurinn nagandi umlykur mig,
bið ég þig einlægt, það öryggi veita,
þú opnir mér leið til að benda á þig.
Þannig að ég megi miskunn þeim veita,
sem myrkur og umkomuleysi nú hrjá,
tendraðu ljós þeim sem örþreytti leita,
að leið til að upplifa, skynja og sjá.