Konan og Rykið


        Kjartan Jón Gíslason frá Mosfelli
                  1902 - 1980

        Á hverjum degi, á hverri stundu,-

 

        já, hvert eitt augnablik
        um húsið er á eilífu iði
        hið undarlega     ryk.
        Hvaðan það kemur, hvað það er
        eða hvernig það verður til,
        er óráðin gáta augum mínum,
        sem aldrei,- aldrei ég skil.

        Það reynir víst enginn með réttu að telja
        rykið velkominn gest.
        Í andrúmsloftinu óðum það hnígur,
        uns það fellur og sest.
        Þá bera þess merki borð og stólar,
        bækur, dúkar og gólf,
        Teppi og yfirleitt allir hlutir,
        hver einasti kimi og hólf.

        Þá birtist konan með kúst í hendi,
        hún kann ekki við þetta ryk.
        Hún starir, hún sópar,- í stofunni er hennar
        starfsglaða augnablik.
        Og nú er hver hlutur hreinn og fægður
        og húsfreyjan glöð og kát.
        Hún tefldi við rykið réttum leikjum,
        og rykið varð skák og mát.

        Og konan er ennþá ung og fögur.
        Hún elskar heimili sitt.-
        Svo elskar hún líka útigöngur,
        já, ýmislegt,- þetta og hitt.
        Hún gengur til baðsins og baðar sig þar
        og býst sínum sumarkjól,
        púðrar sig, málar sig meistaralega
        og minnir á blóm og sól.

        Hún er albúin senn til útigöngu,
        í yfirhöfn sína fer.
        En áður en húsið hún yfirgefur,
        hún eitt fyrir brjósti ber:
        hvort allt sé í röð og reglu þar inni,
        hvort rós í glugga sé þyrst.
        Svo væntir hún fyrir vel unnin störf,
        að verði hún föðmuð og kysst.

        Hún kippist við, hennar kinnar roðna,
        Það kemur á hana hik,
        Því aftur er sest á alla hluti
        þetta undarlega ryk.
        Og aftur kúst sinn hún hefur í höndum,
        er hvorki döpur né kát.
        Hún teflir við rykið réttum leikjum,
        og rykið það verður mát.

        Árin koma og kveðja, sem gengur,
        og konan eldist um leið.
        Í stríði við rykið hún runnið hefir
        sitt rósfagra blómaskeið.
        Og nú er svo komið, að konan, sem var
        með kústinn sinn aldrei hálf,
        en tefldi við rykið réttum leikjum,-
        hún rykfellur nú sjálf.

        Rykið sest að í hári hennar
        og hefir þar eilífan frið.
        Svo girnist það hennar góðu klæði.
        Þar greinir ei liti né snið.
        Nú kemur enginn með kúst í hendi,
        sem kann ekki við þetta ryk.
        Og hlutirnir, sem hún hreinsaði og fægði,
        þeir hjálpa ekki eitt augnablik.

        En rykið fellur – og rykið fellur –
        og rykið á sama stað
        í ásjónu hinnar ágætu konu,
        og óðum byrgir það
        dreymandi augu, sem áður brostu
        og áttu svo djúpan seið,
        mjúkar varir, sem voru kysstar
        og vanga, sem roðnuðu um leið.

        En þótt hún hverfi undir hulu af ryki
        og hennar ei geti meir,
        sagan um kústinn hennar og hana
        í heiminum aldrei deyr.
        Hver ögn af ryki, sem er á sveimi,
        er endurminning hljóð
        um ágæta konu, sem einu sinni
        var ung fögur og góð.

        Á hverjum degi, á hverri stundu,
        já, hvert eitt augnablik
        um húsið er á eilífu iði
        hið undarlega ryk.
        Hvaðan það kemur, hvað það er
        eða hvernig það verður til,
        er óráðin gáta augum mínum,
        sem aldrei, - aldrei ég skil.