Dagbók úr Orlofi að Löngumýri árið 2013

Ellimálanefnd Þjóðkirkjunnar og Ellimálaráð Reykjavíkurprófastsdæma stóðu fyrir orlofi á Löngumýri í sumar. Orlofið hefur verið á Löngumýri sl. 10 ár í mjög góðri samvinnu við starfsfólk Löngumýrarskóla. Á Löngumýri er mjög góð aðstaða fyrir dvöl sem þessa.
Í sumar voru í boði þrír hópar og var meðalaldurinn í þessum hópum samanlagt  87.4 ár.

Fastir liðir í orlofsdvöl eru:
Morgunverður, helgistund / morgunbænir, leikfimi, sund og gönguferðir. Einnig koma konur með handavinnu með sér og myndast því smá saumaklúbbur í hverjum hópi.
Valgerður sá um helgistundirnar ásamt Gunnari Rögnvaldssyni forstöðumanni og að þessu sinni var djáknanemi í einum hóp og aðstoðaði hún í helgistund eins og djáknanemar hafa gert þegar þeir eru með í orlofi.

Eftir hádegi er spilað, sögustund, umræðuhópar og fleira sem áhuga vekur hjá þessum aldurshópi. Í hverjum hóp var tvisvar spilað BINGÓ og var þar mest spilað um vinninga sem Rúmfatalagerinn hafði gefið okkur í þetta verkefni. Þetta voru mjög veglegir vinningar.
Í öll tíu árin höfum við fengið mikið af  fallegum vörum frá þeim  til að nota í orlofinu og  erum við ákaflega þakklát fyrir þann góða stuðning.

Á hverju kvöldi var kvöldvaka sem allir tóku þátt í. Gestir úr Skagafirði komu í heimsókn og skemmtu okkur með tónlistarflutningi og söng og einnig fengum við að heyra mjög skemmtilegan upplestur og frásagnir úr mannlífinu í Skagafirði fyrr og nú.

Allir hóparnir fóru í skemmtiferð um Skagafjörð og nágrenni eins og undanfarin ár.
Fyrsti hópur var svo heppinn að Karlakórinn Heimir var með tónleika á Hofsósi og buðu þeir okkur að koma á tónleikana.  Gunnar forstöðumaður var fararstjóri okkar sem er svo mikils virði þar sem hann þekkir hvern hól og hverja þúfu í Skagafirði og segir frá mannlífinu í sveitunum á svo lifandi og skemmtilegann hátt.
Einnig fór þessi hópur í sumarguðsþjónustu í Reynisstaðarkirkju á sunnudagskvöldi. Prestur var sr. Gísli Gunnarsson og kór kirkjunnar söng.  Þetta var yndisleg helgistund sem við áttum í fallegu veðri í yndislegri kirkju. (Ég hef sjaldan eða aldrei séð jafn tandurhreina kirkju
og gljáfægða kirkjumuni).

Annar hópurinn fór að Hólum. Þar fórum við í guðsþjónustu í umsjá sr. Magnúsar Magnússonar prests á Hvammstanga. Tónlistarfólk sem var með kammertónleika á Hólum um þessa helgi tók þátt í guðsþjónustunni með kór Hvammstangakirkju sem leiddi sönginn.
Hópurinn fór síðan um Hegranes yfir á Sauðárkrók og sagði Gunnar okkur margt fróðlegt og skemmtilegt á þeirri leið.

Þriðji hópurinn fór í Eyjafjörð. Fararstjóri í þeirri ferð var Björn Björnsson fv. skólastjóri á Sauðárkróki en hann er Eyfirðingur. Við heimsóttum Smámunasafn Sverris Hermannssonar í Sólgarði í Eyjafjarðarsveit. Það var bæði fróðlegt og mjög skemmtilegt og allir þekktu mikið af þeim gömlu hlutum sem þarna eru til sýnis. Eftir að skoða safnið fengum við kaffi og rjómavöfflur. Þessu næst var ekið gegnum Akureyri og út fjörðinn með stuttri viðkomu á Dalvík. Síðan fórum við áfram í gegnum öll göngin og næst var stoppað á Siglufirði þar sem hópurinn fékk ís í brauðformi. Það var mjög kærkomið þar sem hitinn í Eyjafirði þennan dag var 24 -25 stig.

Að lokum skal tekið fram að þáttur kvennanna sem sjá um matinn og daglegt viðurværi er alveg ómetanlegur. Þær eiga stóran þátt í að gera þessa dvöl jafn góða og raun ber vitni.
Matur og drykkur er eins og best getur orðið og er það mjög mikilvægt þar sem margir í hópunum búa einir og njóta þess því mjög að fá svona dekur.  

Hópstjóri var Valgerður Gísladóttir framkvæmdastjóri E.R. og henni til aðstoðar var Edda Jónsdóttir. Steinunn Þorgeirsdóttir sjúkraliði og djáknanemi var með í einni ferð og einnig
Helen Þorláksson sjúkraliði og sjálfboðaliði í Akureyrarkirkju.
Sérlegur aðstoðarmaður var Gunnar Rögnvaldsson forstöðumaður á Löngumýri.
Þórey Dögg Jónsdóttir sem nú tekur við framkvæmdastjórastarfi E.R. kom í heimsókn og var með okkur í tvo daga.
Þetta var í stórum dráttum dagskráin okkar í sumar og er það von okkar sem stóðum að orlofinu að allir hafi haft nokkurt gagn og gaman af.

Ég undirrituð þakka samfylgdina í orlofi eldri borgara öll þessi ár og óska Þóreyju Dögg
og ykkur öllum sem standið að orlofinu blessunar Guðs um alla framtíð.

F.h. orlofsnefndar,
Valgerður Gísladóttir.